Hafa áhyggjur af viðbrögðum Kína við faraldrinum

Jake Sullivan á blaðamannafundi fyrr í mánuðinum.
Jake Sullivan á blaðamannafundi fyrr í mánuðinum. AFP

Bandaríkin hafa djúpstæðar áhyggjur af fyrstu viðbrögðum kínverskra stjórnvalda við útbreiðslu faraldurs kórónuveirunnar þar í landi fyrir rúmu ári. Krefja Bandaríkin yfirvöld í Peking um aðgang að upplýsingum frá fyrstu dögum faraldursins.

Frá þessu greinir Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bidens forseta, í yfirlýsingu í dag.

Yfirlýsingin kemur nokkrum dögum eftir að rannsóknarhópur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sneri til baka frá Wuhan í Kína, þar sem faraldurinn átti upptök sín, og benti á að veiran gæti hafa komið frá frosnum sjávarafurðum þar, en ekki frá kínverskri rannsóknarstofu eins og sumir hafa nefnt sem möguleika.

Sullivan tók fram að hann bæri mikla virðingu fyrir stofnuninni – sem Bandaríkin ganga nú aftur til liðs við eftir að ríkisstjórn Donalds Trump sagði sig frá henni til að mótmæla viðbrögðum hennar við faraldrinum – en sagði að það að verja trúverðugleika stofnunarinnar yrði að vera í hæsta forgangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert