Látinn laus eftir 68 ár

AFP

Joe Ligon var 15 ára þegar hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Á fimmtudag yfirgaf hann fangelsið 68 árum síðar eða 83 ára að aldri. Enginn hefur setið jafn lengi í fangelsi í Bandaríkjunum fyrir brot sem framið er á barnsaldri.

Þegar Ligon yfirgaf Phoenix-fangelsið í Montgomery-sýslu á fimmtudagsmorgun var hann með tólf kassa með sér. Þetta er tíu kössum meira en fangelsismálayfirvöld heimila yfirleitt föngum að vera með í fórum sínum.

„Ég er sérstakur maður,“ segir Ligon þegar hann útskýrir farangurinn fyrir blaðamanni Philadelphia Inquirer. Þetta eru forréttindi sem fangi nýtur sem hefur setið lengst allra í fangelsi fyrir dóm sem viðkomandi hlaut fyrir unglingadómstól. Ligon var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 1953.

„Ég geri ráð fyrir því að þú safnir talsverðu af dóti á 68 árum,“ segir Bradley Bridge, lögmaður sem hefur verið lögmaður Ligon frá árinu 2006.

Það var hann sem sótti Ligon í fangelsið og kom honum heim með allt sitt hafurtask.

Ligon var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir aðild að ráni og árás sem kostaði tvær manneskjur lífið. Ligon viðurkennir að hafa tekið þátt í glæpnum ásamt hópi drukkinna ungmenna en hann hafi ekki drepið neinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert