Ráðherra segir af sér vegna bólusetningahneykslis

Skortur er á súrefni á sjúkrahúsum í Perú.
Skortur er á súrefni á sjúkrahúsum í Perú. AFP

Heilbrigðisráðherra Perú sagði af sér í gær vegna fregna af því að fyrrverandi forseti landsins, Martin Vizcarra, hafi verið bólusettur við Covid-19 áður en almenningur fékk aðgang að bóluefninu.

Pilar Mazzetti, sem hefur gegnt embætti heilbrigðisráðherra síðan í júlí, sendi forseta landsins, Francisco Sagasti, afsagnarbréfið í gær en ríkisstjórnin hefur ekki formlega staðfest fréttir af afsögn hennar.

Von er á að nýr ráðherra taki við embætti síðar í dag en það verður fimmti heilbrigðisráðherra Perú frá því fyrsta Covid-19-smitið greindist í landinu fyrir 11 mánuðum.

Pilar Mazzetti hefur sagt af sér embætti en hún gegndi …
Pilar Mazzetti hefur sagt af sér embætti en hún gegndi embætti heilbrigðisráðherra í Perú í sjö mánuði. AFP

Gríðarlegt álag er á heilbrigðiskerfinu í Perú en þar eru öll sjúkrahús yfirfull og yfir 14.100 sjúklingar liggja inni vegna Covid-19. Skortur er á súrefni til þess að gefa þeim sem eiga við öndunarerfiðleika að stríða. 

Byrjað var að bólusetja í Perú á þriðjudag, tveimur dögum eftir að fyrstu skammtarnir af kínverska bóluefninu Sinopharm bárust til landsins, alls 300 þúsund skammtar. 

Á fimmtudag birti dagblaðið Peru 21 frétt um að Vizcarra hefði verið bólusettur með leynd í október, nokkrum vikum áður en hann var rekinn frá völdum sakaður um spillingu. 

Vizcarra segir að hann hafi tekið þátt í tilraunum Sinopharm á virkni bóluefnisins. „Ég tók þá hugrökku ákvörðun að ganga til liðs við 12 þúsund sjálfboðaliða,“ segir Vizcarra. Hann hafi haldið því leyndu því sjálfboðaliðar voru bundnir trúnaði. Eiginkona hans var einnig þátttakandi í tilrauninni. 

Alls hafa 1,2 milljónir Perúbúa smitast af Covid-19 og 43 þúsund látist. Byrjað var að bólusetja framlínustarfsmenn í vikunni en ekki hefur verið gefið út hvenær verður byrjað að bólusetja aðra landsmenn. Alls eru íbúar Perú 33 milljónir talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert