„Þetta er stórhættulegt, hann sér nánast ekkert út og kemur ekki auga á neitt sem er fimm metra frá honum,“ segir Terje Bødtker, eftirlitsmaður norsku umferðarstofunnar Statens vegvesen, sem átti fótum fjör að launa í gær þar sem hann var við störf í Os, sunnan við Bergen.
Hann hugðist þá stöðva vörubifreið til að ræða við bílstjórann sem hafði hlaðið svo miklu dóti innan á framrúðuna að augljóst var að hann skapaði stórhættu á vegum úti. Hafði bílstjórinn, sem var að koma akandi frá Tyrklandi með vörur til Bergen, límt þar upp ekki færri en sjö vegtollalykla auk þess sem GPS-skjár, fáni og skilti með nafni hans drógu enn gerr úr sýn hans á evrópska vegi.
Kom ökumaðurinn enda ekki auga á Bødtker eftirlitsmann og hafði nær ekið hann niður. „Hann hefði getað ekið á mig hefði ég staðið þar sem ég stóð,“ segir Bødtker í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, en honum var nauðugur einn kostur að kalla lögreglu til og tókst henni að stöðva för ökumannsins.
Gaf hann þá skýringu að hann hefði um langa hríð ekið með búnaðinn á rúðunni og væru honum norskar umferðarreglur ekki tamar. „Það var svo mikið lím innan á framrúðunni að hann varð að nota hníf til að skafa það af áður en við hleyptum honum áfram,“ segir Bødtker.
Bílstjórinn slapp þó með tiltal eftirlitsmanns og lögreglu. Fyrsta brot í þessum flokki gerir ráð fyrir akstursbanni þar til bætt hefur verið úr og gerði ökumaður það á staðnum. Öðru broti fylgja sömu skilyrði, en það er ekki fyrr en við þriðja sams konar brot að ökumanni er gerð 8.000 króna sekt, jafnvirði rúmlega 121.000 íslenskra króna.
Bødtker eftirlitsmaður telur uppákomuna í gær þó varla til sérstakra tíðinda, hún sé ekki einu sinni versta tilfellið sem rekið hafi á fjörur þeirra félaga hjá Statens vegvesen, minnst einu sinni í mánuði stöðvi þeir ökumenn með framrúðuna þakta græjum og skreytingum ýmiss konar.
„Þetta er bara hluti af vinnudeginum. Maður þarf alltaf að hafa það bak við eyrað að hafa rými til að forða sér undan,“ segir Terje Bødtker umferðareftirlitsmaður um daglegan raunveruleika starfs síns.