Sunnudagskvöldverðurinn við tölvuna er orðið að hefð hjá parinu Brandon og Mary. Yfir sex þúsund kílómetrar skilja þau að vegna Covid-19. Annað þeirra býr í New York en hitt í Ósló.
Það verður því enginn rómantískur kvöldverður saman hjá turtildúfunum á Valentínusardaginn í ár. Brandon Ballin, 45 ára matreiðslumaður í New York, og Mari Solberg, 41 árs meðferðarsérfræðingur í Ósló, kynntust á tónleikum í New York í nóvember 2019. Nokkrum mánuðum áður en farsóttin kom í veg fyrir ferðalög milli landanna.
Þau vonuðust til þess að ganga í hjónaband í Noregi nú í apríl en vegna nýrra bráðsmitandi afbrigða af Covid-19 er útséð um það. Solberg segir í samtali við AFP-fréttastofuna að þau hafi viljað gifta sig svo stuttu eftir að þau kynntust til þess að geta verið saman. Ekki bara vegna farsóttarinnar og ferðatakmarkana heldur einnig vegna þess að þau búa í ólíkum löndum og ef þau væru gift væri þeim gert auðveldara að vera saman.
Núna miða þau við brúðkaup í júní og segir Solberg að þau krossi fingur og voni það besta. „Að gera áætlanir núna er ómögulegt. Við vitum ekki hvenær takmörkunum verður aflétt og við vitum ekki hvað verður leyfilegt eða hversu lengi það endist. Þetta getur tekið á,“ segir hún.
Þau eru ekki ein í þessum sporum því fjöldamörg pör sem búa hvort í sínu landinu hafa þurft að þola það sama undanfarna mánuði. Þau ákváðu fljótlega eftir að farsóttin braust út að hittast við skjáinn á sunnudögum og elda saman. „Mari átti að vera hér 2020, 21. mars, en fluginu var aflýst vegna farsóttarinnar. Þannig að hún lagði til að við myndum elda saman,“ segir Ballin.
Þetta ár frá því Covid-19 braust út hefur parið aðeins náð að hittast í eigin persónu í eitt skipti. það var í haust. Það var eftir að þau höfðu sent inn tilkynningu um samband þeirra að Ballin komst til Noregs í haust í tvær vikur. Hann var í sóttkví nánast allan tímann en notaði tækifærið og bað hennar.
Aftur á móti hafa landamæri Noregs verið lokuð frá 23. janúar og aðeins heimild veitt ef um bráða nauðsyn er að ræða. Ástarsambönd falla ekki undir þann flokk. Svipaða sögu er að segja af Bandaríkjunum.