Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, ætlar að fagna þeim áföngum sem náðst hafa í baráttunni við Covid-19 í dag en fögnuðurinn verður heldur lágstemmdari en til stóð.
Johnson er sannfærður um að markmiðið um að búið verði að bólusetja 15 milljónir landsmanna við Covid-19 náist á morgun. Það muni marka þáttaskil fyrir ríkisstjórnina sem hefur verið gagnrýnd fyrir fyrstu viðbrögð við veirunni.
Í nýrri könnun sem Observer lét gera kemur fram að 62% eru sátt við hvernig stjórnvöld hafa staðið að bólusetningum og 45% telja það sennilega það besta sem yfirvöld hafa gert til að bregðast við Covid-19. Þetta er í annað skiptið sem fleiri telja að ríkisstjórnin hafi brugðist rétt við en ekki frá því í maí í fyrra. Nú eru 39% á þeirri skoðun en 38% eru á öndverðum meiði. Fyrir mánuði voru 30% á þeirri skoðun að rétt hefði verið tekið á málunum en 51% var ósammála.
Á sama tíma hefur Íhaldsflokkurinn aukið forskotið á Verkamannaflokkinn. Fyrir nokkrum vikum voru flokkarnir hnífjafnir í vinsældum meðal kjósenda en nú er Íhaldsflokkurinn með 5% forskot.
Johnson var spurður nýverið hvort hann teldi líklegt að markmiðinu yrði náð og þá var hann bjartsýnn. Á sama tíma verði að sýna varkárni. Unnið er að því innan ríkisstjórnarinnar að uppfæra sóttvarnareglur, það er draga úr hömlum á næstu vikum.
Að sögn Johnsons er það menntun barna sem er í helsta forgangi ríkisstjórnarinnar og eins að hægt verði að opna verslanir að nýju. Í kjölfarið verði síðan hægt að setja af stað þjónustustofnanir og fyrirtæki.
Í viðtali við Observer segir Sarah Gilbert, prófessor við bóluefnamiðstöð Oxford-háskóla, sem leiddi teymið á bak við Oxford/AstraZeneca-bóluefnið, að það sé afar gott að sjá hversu margir eru að fá bóluefni núna en seint hafi verið brugðist við á ýmsum sviðum varðandi farsóttina.
Hún nefnir sem dæmi að það hafi verið vitað að kórónuveirur smitast með andrúmsloftinu, það er dropasmit, frá því Mers-faraldurinn braust út í Suður-Kóreu árið 2015. Þrátt fyrir það sé hætta á smiti milli fólks á sóttvarnahótelum.
Þó svo að Covid-19 hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti hafi verið vitað lengi að sjúkdómur X myndi koma fram á einhverjum tímapunkti og dreifast hratt. „Enn og aftur erum við ekki reiðubúin.“
Í gær var greint frá því að 621 hefði látist innan við fjórum vikum eftir að hafa greinst með Covid-19. Fyrir viku voru dauðsföllin 828 talsins. Í gær voru staðfest 13.308 ný smit í Bretlandi en voru 15.144 á föstudag.
Á föstudag voru tæplega 545 þúsund Bretar bólusettir við Covid-19 og því afar stutt í að markmiðinu um 15 milljónir yrði náð. Þeir sem hafa verið bólusettir eru Bretar sem eru komnir yfir sjötugir eða eldri, heilbrigðisstarfsmenn og þeir sem eru taldir sérstaklega útsettir fyrir alvarlegum veikindum.
Næst verður farið í að bólusetja aldurshópinn 65-69 ára og fleiri einstaklinga sem eru með undirliggjandi sjúkdóma.