Fannst látinn í herbúðum

Erlendir hermenn, sem komu til Noregs vegna Joint Viking 2021 …
Erlendir hermenn, sem komu til Noregs vegna Joint Viking 2021 í janúar, bíða þess að gangast undir kórónuveirupróf í herbúðunum í Bardufoss. Hundrað smit komu upp fyrstu daga heimsóknarinnar og var æfingunni að lokum aflýst en hún átti að standa yfir í rúma tvo mánuði, fram í mars. Ljósmynd/Norski herinn

Almenn lögregla í Noregi og hollenska herlögreglan De Koninklijke Marechaussee rannsaka nú voveiflegt andlát hollensks hermanns sem fannst látinn í hermannabragga í Skjold-herbúðunum í Målselv í Troms-fylki í gær, laugardag.

Hollendingurinn tilheyrði hópi 3.000 hermanna sem koma frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi og hafa dvalið í Indre Troms frá því fyrir miðjan janúar vegna þátttöku í NATO-heræfingunni Joint Viking 2021 sem 7.000 norskir hermenn áttu einnig að taka þátt í, en æfingunni var aflýst 26. janúar. Þegar við komu erlendu gestanna kom upp hópsmit kórónuveiru eins og mbl.is fjallaði um í janúar og urðu tilfellin 100 er upp var staðið.

„Málið er nú í rannsókn almennrar lögreglu og hollenskrar herlögreglu svo ég get ekkert tjáð mig um hvað varð manninum að bana,“ segir Thomas Gjesdal, vakthafandi upplýsingafulltrúi norska hersins, í samtali við ríkisútvarpið NRK.

Mike Hofman, talsmaður hollensku herlögreglunnar, staðfestir við NRK að rannsóknin eigi sér stað og von sé á liðsauka frá Hollandi rannsakendum til fulltingis. „Við störfum nú með norskum starfsbræðrum okkar, en rannsóknarforræðið er í okkar höndum,“ segir Hofman og bætir því við að ekki sé unnt að greina frá nafni hermannsins látna að svo búnu.

Dvelja fram á vor

Það var hollenska ríkissjónvarpsstöðin NOS sem greindi fyrst frá andláti hermannsins, en Gjesdal upplýsingafulltrúi kveður engan hollensku hermannanna, sem ekki eru þegar snúnir aftur til síns heima eftir að æfingunni var aflýst, vera smitaðan af veirunni.

Þrátt fyrir að ekkert verði af æfingunni mun hluti erlendu gestanna dvelja í Noregi fram á vor, þar af hópur Hollendinga sem ráðgert er að verði gestir norska hersins fram til loka mars eða byrjunar apríl.

Segir Gjesdal dvölina helgast af því að ætlunin sé að gestkomandi hermenn snúi til síns heima svo örugglega sem mest megi vera með tilliti til sóttvarna og fari þeir því í hollum. Hann kveður andlát hollenska hermannsins ákaflega sorglegt, sárt sé að missa starfsbróður og bandamann. „Og ekki er þetta síður þungbært fyrir aðstandendur hans heima,“ segir upplýsingafulltrúinn að lokum.

NRK

VG

ABC Nyheter

NOS (á hollensku)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert