Indverski loftslagsaðgerðasinninn Disha Ravi hefur verið handtekin eftir að hafa deilt skjali á netinu sem átti að hjálpa bændum að mótmæla nýjum landbúnaðarlögum í landinu.
Mikil mótmæli hafa geisað í landinu síðasta hálfa árið vegna laganna en bændur segja að með þeim sé bændastéttin upp á náð og miskunn stórfyrirtækja. Kalla þeir eftir því að lögin verði felld úr gildi. Harka hefur færst í mótmælin síðustu vikur og hafa 159 látið lífið frá því 26. janúar þegar lögregla réðst til atlögu gegn mótmælendum.
Skjalið sem Disha Ravi bjó til gegnum Google Docs innihélt leiðbeiningar um hvernig mætti bera sig að við mótmælin, helstu áherslur mótmælenda og ráðleggingar um hverjum væri hægt að fylgja á samfélagsmiðlum til að fá skýrari mynd á stöðuna. Skjalið dreifðist hratt um samfélagsmiðla og var Greta Tunberg, sænski aðgerðasinninn, ein þeirra sem deildi skjalinu.
Í yfirlýsingu frá lögreglu er Disha Ravi sökuð um að hafa unnið gegn ríkinu með því að breiða út óánægju með yfirvöld. Henni yrði haldið í varðhaldi næstu fimm daga. Engar formlegar ákærur hafa þó verið gefnar út.
Þrátt fyrir umfang mótmælanna hafa þau vakið litla athygli almennings á Vesturlöndum. Hafa sumir raunar furðað sig á áhugaleysinu, þeirra á meðal barbadoska-söngkonan Rihanna sem vakti athygli á ástandinu á Twitter fyrr í mánuðinum.