Hundruð þúsunda mótmæltu valdaráni hersins í Mjanmar um allt land í dag, níunda daginn í röð. Tvær vikur eru síðan herinn í landinu steypti af stóli réttkjörnum leiðtoga landsins, Aung San Suu Kyi, og færði í stofufangelsi. Hundruð aðgerðasinna og fyrrverandi valdamanna hafa sömuleiðis verið handtekin.
Í borginni Myitkyina í norðurhluta ríkisins mátti heyra hermenn skjóta að óbreyttum borgurum sem mótmæltu valdaráninu. Að sögn BBC er ekki ljóst hvort byssukúlurnar voru gúmmíkúlur eða hefðbundnar. Meðal þeirra handteknu í landinu eru fimm blaðamenn.
Fjarskiptafyrirtæki í landinu hafa sagt að þeim sé fyrirskipað að slökkva á netinu á milli eitt og níu á morgnana, og hafa þau hlýtt því möglunarlaust. Meðal þeirra fyrirtækja er hið norska Telenor.
Erindreki Sameinuðu þjóðanna segir að herforingjarnir hafi lýst yfir stríði gegn íbúum Mjanmar. Áhlaup á almenna borgara að nóttu til, fjöldi handtaka, frelsisskerðingar, slökkt á netinu, farartæki hersins um allar götur. Heitir hann því einnig að herforingjarnir verði látnir sæta ábyrgð.
Mjanmar, einnig þekkt sem Búrma, var undir stjórn herforingja frá árinu 1962 til 2011. Árið 2010 hófst hægfara umbótaferli sem leiddi til frjálsra kosninga árið 2015 og valdatöku ríkisstjórnar Aung San Suu Kyi, sem áður hafði fengið friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu sína gegn herforingjastjórninni. Völd hersins voru þó enn mikil og áttu hans menn til að mynda tryggð sæti á þingi.
Árið 2017 hófu stjórnvöld í Mjanmar herferð gegn róhingja-múslimum, sem varð til þess að meira en hálf milljón manna þurfti að flýja yfir landamærin til Bangladess. Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað meðferð róhingja í Mjanmar „skólabókardæmi um þjóðernishreinsun“ og ýmsum þótt það Nóbelsverðlaununum til háðungar að Aung San Suu Kyi skuli vera handhafi þeirra.