Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, fyrirskipaði þriggja daga útgöngubann í borginni Auckland vegna þriggja nýrra Covid-19-smita sem greindust í borginni. Útgöngubannið tekur gildi á miðnætti. Bannið þýðir að skólum er lokað og fólki gert að vinna heima fyrir utan þá sem verða að mæta til vinnu, það er framlínustarfsmenn. Alls eru íbúar Auckland 1,7 milljónir talsins en smitin þrjú eru öll í sömu fjölskyldu.
Ekki er vitað hvaðan fólkið smitaðist og segir Ardern að það hafi ekki verið auðveld ákvörðun að loka öllu í borginni en staðan verði metin eftir sólarhring. Unnið er að smitrakningu en annars staðar í landinu eru sóttvarnareglur einnig hertar þrátt fyrir að ekki sé öllu lokað.
Ardern segist alveg gera sér grein fyrir hvað hertar aðgerðir þýða fyrir hagkerfið en hún viti líka að það kostar þjóðfélagið miklu meira ef ekki er brugðist við.
Á þessari stundu er ekki vitað hvort um bráðsmitandi afbrigði er að ræða en það ætti að koma í ljós fljótlega.
Guardian greinir frá því að samkvæmt þeim reglum sem verða í gildi í Auckland verði settar upp eftirlitsstöðvar við borgarmörkin og miklar hömlur lagðar á ferðalög. Opinberum stofnunum svo sem bókasöfnum og listasöfnum er lokað. Eins kvikmyndahúsum, matsölustöðum, líkamsræktarstöðvum, íþróttahúsum og sundlaugum. Leikvöllum og mörkuðum er einnig lokað.
Aftur á móti eru matvöruverslanir og bensínstöðvar opnar áfram og biður Ardern fólk um að æða ekki af stað til þess að birgja sig upp af mat fyrir þessa þrjá daga.
Um er að ræða þriggja manna fjölskyldu, móður, föður og dóttur sem öll greindust með Covid-19 við skimun í dag. Móðirin starfar hjá LSG Sky Chefs, sem er einn helsti framleiðandi flugvélamatar í heiminum, í Mangere. Búið er að senda allt starfsfólk í Covid-19 skimun. Konan, sem starfar aðallega í þvottahúsi en einnig við matarundirbúning, fór síðast í skimun 18. janúar og var þá ekki með smit. Hún hefur ekki mætt til vinnu síðan 5. febrúar.
Landlæknir Nýja-Sjálands, Ashley Bloomfield, segir að fjölskyldan hafi gert allt rétt, verið í einangrun frá þeim tíma sem hún fann fyrir einkennum og að konan hafi ekki verið smitandi þegar hún var við vinnu. Maður hennar er iðnaðarmaður. Dóttir þeirra er í Papatoetoe-menntaskólanum og verður skólinn lokaður á morgun og á þriðjudag. Fimm kennarar og 28 nemendur eru taldir hafa verið í nánum samskiptum við stúlkuna. Allir hafa verið sendir í sóttkví. Jafnframt verða settar upp skimunarstöðvar í skólanum í vikunni.