Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur lýst yfir sigri eftir niðurstöðu öldungadeildar Bandaríkjaþings þar sem hann var sýknaður af ákæru fulltrúadeildar þingsins til embættismissis. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Trump.
Er þetta í annað sinn sem Trump er sýknaður af ákæru til embættismissis en hann er fyrsti forsetinn til að ganga í gegnum það. Í yfirlýsingunni þakkar Trump lögfræðiteymi sínu og segir hann það hafa varist kröftuglega með sannleikann að vopni.
Þar segir enn fremur: „Okkar sögulega hreyfing, Gerum Bandaríkin frábær aftur, er bara að byrja. Ég á eftir að deila ýmsu með ykkur á komandi mánuðum og hlakka mjög til að halda áfram vegferð okkar. Saman getum við náð frábærum árangri fyrir fólkið í landinu,“ var haft eftir Trump.
Tvo þriðju hluta öldungadeildarinnar þarf til að sakfella í ákæru til embættismissis. Atkvæði féllu svo að 57 greiddu atkvæði með sakfellingu og 43 með sýknu. Hann var upphaflega ákærður til embættismissis í fulltrúadeildinni fyrir að „hvetja til innrásar“ í þinghúsið í ræðu í Washington 6. janúar.