Yfir 100 manns í afmælisveislu

AFP

Lögreglan í Malmö stöðvaði afmælisboð á föstudagskvöld þar sem yfir 100 manns voru í veislunni en samkvæmt sænskum sóttvarnalögum mega að hámarki átta koma saman.

Tilkynnt var um veisluna í miðborg Malmö skömmu eftir klukkan 20 á föstudagskvöldið og kom lögreglan á vettvang eftir að til átaka kom á milli gesta. Á milli 100 og 150 manns voru í veislunni. 

„Við fengum upplýsingar um að stór hópur væri saman kominn þarna klukkan 17:21. En við sendum ekki lögreglumenn á staðinn á þeim tíma,“ segir Rickard Lundqvist, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Malmö, í samtali við Sydsvenskan. „Það er hlutverk borgaryfirvalda að annast eftirlit.“

Þegar lögregla kom á vettvang var enginn slasaður en lögreglan aðstoðaði þann sem skipulagði boðið við að rýma salinn. „Það var ekki eins og við værum að þvinga fólk til þess að fara. Þess í stað vorum við að tryggja að það færi með ró og spekt,“ segir Lundqvist. 

Frétt Sydsvenskan

Ekki aflétt fyrr en í sumar

Sóttvarnalæknir Svía, Anders Tegnell.
Sóttvarnalæknir Svía, Anders Tegnell. AFP

Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, biður fólk um að reikna ekki með því að sóttvarnareglum verði aflétt í vor. Enn séu mörg ný smit og ólíklegt að stórir hópar geti komið saman í vor. Þetta kom fram í viðtali við lækninn í sænska útvarpinu í morgun.

Hann segist hins vegar vongóður um að sumri fylgi bjartari tíð hvað þetta varðar. Þar skipti miklu hvernig bólusetningar gangi. Tegnell segist enn vonast til þess að búið verði að bólusetja fullorðna um mitt sumar líkt og áætlað er. 

Tegnell segist ekki geta svarað því hvernig verður með áhorfendur á leikjum í sænsku knattspyrnunni en úrvaldsdeildin hefst í maí. Hann á ekki von á að áhorfendur fái að vera viðstaddir en ef svo verður þá mjög takmarkaður fjöldi. 

Frétt SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert