Allir verði bólusettir fyrir 27. júní

Pfizer/BioNTech bóluefnið við Covid-19.
Pfizer/BioNTech bóluefnið við Covid-19. AFP
Danmörk mun fá um 900 þúsund fleiri skammta af bóluefni Pfizer en reiknað var með áður. Hægt verður að bólusetja alla þá sem vilja bóluefni fyrir 27. júní. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá landlækni. 

Søren Brostrøm, landlæknir Danmerkur, segir að allir fullorðnir verði bólusettir áður en sumarleyfi hefjast.

Þetta kemur fram í uppfærðu bólusetningardagatali danskra yfirvalda en fréttatilkynning var send á fjölmiðla í morgun.

Dagatalið er uppfært einu sinni í viku og byggir á nýjustu spám og væntingum um afhendingu bóluefnis frá framleiðendum.

Nú er gert ráð fyrir að tæplega ein milljón skammta af bóluefni komi til viðbótar við það sem áður var talið fyrir sumarið. Þetta skýrist af verulegri framleiðsluaukningu hjá Pfizer en á sama tíma hefur Astra-Zeneca tilkynnt að fyrirtækið geti ekki afhent jafnmarga skammta og til stóð.

Haft er eftir Brostrøm í tilkynningunni að þetta þýði að allir þeir sem vilja þiggja bólusetningu fái bólusetningu fyrir lok viku 25 (ekki seinna en 27. júní) og að meirihluti landsmanna verði að fullu bólusettur áður en fólk fer í sumarleyfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert