Breti játaði fyrir rétti í dag að hafa brotið sóttvarnareglur í Singapúr með því að hafa átt ástarfund með unnustu sinni á lúxushóteli þegar hann var í sóttkví.
Saksóknari fór fram á að maðurinn yrði dæmdur í fjögurra vika fangelsi og til að greiða tæpar 100 þúsund krónur í sekt. Hámarksrefsing er sex mánaða fangelsi fyrir brot af þessu tagi.
Nigel Skea kom til Singapúr frá London í september til þess að hitta unnustu sína Agatha Maghesh Eyamalai sem er búsett í Singapúr og var gert að sæta sóttkví á hótelinu í tvær vikur. Við komuna sendi Skea skilaboð til Eyamalai um hvar hann dveldi og bókaði annað herbergi fyrir hana á sama hóteli, bara 13 hæðum fyrir ofan hans herbergi.
Hann laumaðist síðan út úr herberginu og fór upp neyðarstiga upp á 27. hæð þar sem Eyamalai beið hans og opnaði neyðardyrnar svo hann kæmist inn á hæðina. Þau eyddu síðan nóttinni saman.
Skea reyndi að komast aftur í herbergi sitt um morguninn en tókst ekki að komast inn á sína hæð þar sem neyðarhurðin var læst á þeirri hæð. Hann hélt því áfram niður á fjórðu hæð en þar var hann stöðvaður af öryggisverði. Skea var án grímu sem er annað brot á sóttvarnalögum í Singapúr.
Saksóknari segir að með broti sínu hafi Skea sett aðra í hættu en refsingin verður kveðin upp 26. febrúar. Eyamalai játaði að hafa aðstoðað Skea við að fremja brotið en þau Skea gengu í hjónaband í nóvember.
Yfirvöld í Singapúr hafa gengið hart eftir því að sekta fyrir brot á sóttvarnareglum og eitthvað er um að útlendingar hafa misst atvinnuleyfi í borgríkinu.
Alls hafa 600 þúsund smitast og 29 látist í Singapúr frá því faraldurinn braust út en íbúar eru tæplega 6 milljónir talsins.