Bólusetningarhneyksli í Perú

AFP

Utanríkisráðherra Perú sagði af sér í gær og er hann annar ráðherra landsins sem segir af sér í tengslum við hneyksli tengt bólusetningum stjórnmálamanna við Covid-19 áður en almenningur fær bólusetningu.

Perú hefur farið illa út úr faraldrinum þar sem sjúkrahús eru yfirfull og súrefnisskortur víða. Byrjað er að bólusetja heilbrigðisstarfsmenn en bólusetning hófst 8. febrúar. 

Almenningur hefur brugðist illa við fregnum af bólusetningum stjórnmálamanna, þar á meðal fyrrverandi forseta landsins, Martin Vizcarra, en hann segist hafa tekið þátt í tilraunum með bóluefni. Heilbrigðisráðherra sagði af sér um helgina.

Greint er frá því í fjölmiðlum í Perú að ríkissaksóknari hafi hafið athugun á Vizcarra og öðrum sem taldir eru bera ábyrgð á bólusetningum háttsettra embættismanna og stjórnmálamanna. 

Elizabeth Astete, sem er háttsett í utanríkisþjónustunni, greindi frá því á Twitter í gær að hún hefði verið bólusett í síðasta mánuði. Þetta hefðu verið alvarleg mistök og að hún myndi ekki þiggja seinni skammtinn. 

Engar dagsetningar eru fyrirliggjandi varðandi bólusetningar almennings í Perú en ríkisstjórnin stefnir á að bólusetja 10 milljónir fyrir lok júlí.  

Vizcarra var bólusettur stuttu áður en hann var rekinn frá völdum. Hann segist hafa þagað um bólusetninguna þar sem hann var bundinn trúnaði. Aftur á móti hafnar Cayetano Heredia-háskólinn í Lima því að hann hafi tekið þátt í tilraun Sinopharm á bóluefni lyfjafyrirtækisins en skólinn hefur yfirumsjón með tilraun kínverska lyfjafyrirtækisins í Perú.

Vizcarra segist vera mjög hissa á yfirlýsingu háskólans og að hann hafi fengið tvo skammta af bóluefninu við tilraunina. Hann hafi alls ekki verið að svindla sér fram fyrir röðina og varar við því að óvinir ríkisins séu að reyna að gera hann tortryggilegan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert