Auðjöfurinn og stofnandi Microsoft, Bill Gates, segir að það að binda enda á kórónuveirufaraldurinn sé „mjög, mjög auðvelt“ í samanburði við það að snúa þróuninni í hlýnun jarðar til betri vegar.
Þá segir Gates að ef mannkynið fyndi lausn á loftslagsvánni væri það „hið magnaðasta sem mannkynið hefur nokkurn tímann gert“. Í samtali við blaðamann BBC segir Gates að fólk ætti ekki að vanmeta stærð áskorunarinnar.
„Við höfum aldrei farið í gegnum umskipti sambærileg þeim sem við ætlum okkur í á næstu 30 árum. Það eru engin fordæmi fyrir þessu,“ segir Gates.
Hann segir tvær tölur mikilvægar í þessu samhengi, núll og 51 milljarður. Hin síðarnefnda stendur fyrir tonnin af gróðurhúsalofttegundum sem bætast við andrúmsloftið árlega en að sögn Gates þarf heimsbyggðin að færa 51 milljarð tonna niður í núll.
Gates segir að tæknin geti aðstoðað heimsbyggðina við að ná því markmiði, nýsköpunarátak á gríðarstórum skala sé svarið við loftslagsvánni. Gates telur að þetta sé ekki mögulegt nema ríkisstjórnir heimsins grípi til aðgerða.