Fyrsti fangelsisdómur í rafskútumáli

Anne Våge átti ekki sjö dagana sæla eftir að hún …
Anne Våge átti ekki sjö dagana sæla eftir að hún varð fyrir rafhlaupahjóli á 27 til 34 km hraða á götu í Ósló í september. Hún hlaut blæðingu í höfði, alvarlega höfuðáverka, sjónskerðingu og skurði í andliti. Var dóttur hennar í fyrstu tjáð að hún væri í lífshættu. Våge segir slysið hafa kennt henni gildi þess að halda sér í formi en hún æfði tvisvar til þrisvar í viku fyrir atburðinn. Ljósmynd/Úr einkasafni

Fyrsti norski fangelsisdómurinn yfir stjórnanda rafmagnshlaupahjóls, sem einnig hefur hlotið heitið rafskúta, var kveðinn upp í Héraðsdómi Óslóar í dag þegar 48 ára gamall maður hlaut 18 daga óskilorðsbundinn dóm auk sviptingar ökuleyfis í eitt ár fyrir að aka á 68 ára gamla konu á Bygdøy allé í Ósló í september.

Konan, Anne Våge, var á leið yfir götu og ætlaði sér í verslun handan hennar. Ekki var talið útilokað fyrir dómi, þó gegn neitun Våge, að gönguljós hefði verið rautt gagnvart henni, en maðurinn var engu að síður talinn hafa stjórnað rafhjólinu svo gáleysislega að það yrði ekki metið honum til refsilækkunar.

Reyndist ná 48,2 km hraða

Var hann í fyrstu ákærður fyrir brot gegn umferðarlögum, en ákærunni breytt í meðförum Ingvild Nordhaug saksóknara og háttsemi ákærða færð undir ákvæði 280. greinar hegningarlaga sem fjallar um líkamstjón.

Ákærði taldi sjálfur að hann hefði ekið á 27 til 28 kílómetra hraða miðað við klukkustund þegar slysið varð, en taldi þó ekki loku fyrir það skotið að hraðinn hefði í raun verið allt að 34,2 km svo sem greindi í ákæru. Samkvæmt reglum norsku umferðarstofunnar Statens vegvesen skulu rafmagnshlaupahjól svo úr garði gerð að þau nái ekki meira en 20 km hraða fyrir eigin afli. Við prófun hjólsins reyndist það þó ná 48,2 km hraða.

Våge hlaut alvarlegt líkamstjón við ákeyrsluna, blæðingu í höfði, alvarlega höfuðáverka, sjónskerðingu og skurði í andlit. Var dóttur hennar í fyrstu tjáð að hún væri í lífshættu. Var hún algjörlega forfölluð frá vinnu fram í janúar, eða í fimm mánuði, en hefur nú snúið til baka í hálft starf.

Skjótt skipast veður í lofti, Anne Våge fyrir og eftir …
Skjótt skipast veður í lofti, Anne Våge fyrir og eftir umferðarslysið í september. Hún var óvinnufær fram í janúar en vinnur nú hálft starf til að byrja með. Ljósmynd/Úr einkasafni

Ákærði, sem ók á reiðhjólarein samhliða akrein fyrir bifreiðar, kvaðst hafa séð Våge fram undan og gert sér ljóst að árekstur væri nær óumflýjanlegur. Hann hefði þó ekki vogað sér að sveigja frá og inn á akrein þar sem þá hefði hann þurft að líta sér um öxl til að kanna afstöðu bifreiða að baki sér. Því síður þorði hann að nauðhemla af ótta við að kastast þá fram fyrir sig og yfir stjórnvölinn og var þá aðeins einn kostur í stöðunni – að aka viðstöðulaust á Våge.

„Hafið er yfir vafa að akstur ákærða var engan veginn í samræmi við ábyrga háttsemi í umferðinni,“ segir Ole Kristen Øverberg héraðsdómari í dómsorði sínu.

Verjandi ákærða, Jan Kildahl, segir dóminn mjög strangan í samtali við norsku fréttastofuna NTB. „Hættueiginleikar rafmagnshlaupahjóls eru lagðir að jöfnu við bifreið,“ segir hann, „dómfelldi er látinn bera sökina óskipta þrátt fyrir að verulegur orsakaþáttur í málinu sé að tjónþoli gekk yfir götuna gegn rauðu ljósi. Þrátt fyrir að hann [skjólstæðingurinn] óskaði þess sjálfur að bera ábyrgð og viðurkenndi refsiábyrgð, þykir okkur hann sæta mjög mikilli ábyrgð í málinu.“

Ole Kristen Øverberg héraðsdómari kvað dóminn upp í Héraðsdómi Óslóar …
Ole Kristen Øverberg héraðsdómari kvað dóminn upp í Héraðsdómi Óslóar í dag, fyrsta fangelsisdóminn sem fellur í Noregi vegna notkunar rafhlaupahjóls, farartækis sem samkvæmt norskum reglum á ekki að ná meira en 20 km hraða miðað við klukkustund. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Nordhaug saksóknari kveðst hafa lesið dóminn og niðurstaðan sé henni þóknanleg. „Rétturinn fellst á það með ákæruvaldinu að óskilorðsbundið fangelsi sé hæfileg refsing í málinu. Að öðru leyti vil ég ekki tjá mig um niðurstöðuna,“ segir saksóknari við norska ríkisútvarpið NRK.

Sjálf kveðst Våge sátt við niðurstöðuna, en þau ákærði komust að samkomulagi sín á milli um skaðabætur úr hendi hans. „Þetta er ágæt aðvörun til allra um að hoppa ekki bara upp á rafmagnshjólið og gefa í botn,“ segir hún. „Það hefur kostað mig miklar æfingar að ná mér og þetta kenndi mér hve mikilvægt það er að halda sér í formi,“ segir Våge sem hafði stundað líkamsrækt tvisvar til þrisvar í viku áður en slysið varð í haust.

NRK

NRKII (frétt af málinu í haust)

Nettavisen

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert