Handaband forsenda ráðningar í sænskum bæ

Allir nýráðnir starfsmenn sveitarfélagsins munu þurfa að sanna ágæti sitt …
Allir nýráðnir starfsmenn sveitarfélagsins munu þurfa að sanna ágæti sitt með því að taka í hönd yfirmannsins. AFP

Bæjarráð sænska bæjarins Trelleborgar á Suður-Skáni samþykkti á mánudag nýjar reglur um að handaband starfsmanns og yfirmanns yrði skylda við ráðningar í störf innan sveitarfélagsins. 

Tillagan var lögð fram af fulltrúa þjóðernisflokksins Svíþjóðardemókrata. Hún var raunar áður lögð fram árið 2019 en hlaut ekki brautargengi þá. Einhverjir kunna að furða sig á að tillaga sem þessi samþykkt í miðjum heimsfaraldri, en sennilega er það til marks um að ímyndarstjórnmálin láti ekki að sér hæða.

Hún er enda lögð fram til höfuðs múslimum. Dæmi eru um að þeir vilji, af trúarlegum ástæðum, ekki taka í hönd fólks af ólíku kyni. Árið 2018 komst Vinnudómstóllinn (Arbetsdomstolen) að þeirri niðurstöðu að vinnustaður hefði mismunað konu með því að hætta við að ráða hana eftir að hún neitaði að taka í höndina á yfirmanni, sem var karlmaður.

Reglur settar víðar

Fleiri sveitarfélög bæði í Svíþjóð og Danmörku hafa sett samskonar reglur.

„Fyrir skýran meirihluta kjósenda okkar er það ansi mikilvægur hlutur, að fólk fylgi siðum þess lands sem það kemur til,“ segir Heluth Petersén, bæjarfulltrúi Svíþjóðardemókrata, í samtali við sænska ríkissjónvarpið.

Hann segir að krafan gildi ekki meðan á kórónuveirufaraldrinum stendur, en athygli vekur þó að faraldurinn er ekki skrifaður sérstaklega inn í reglurnar, heldur aðeins að þeir sem séu veikir og beri smitandi sjúkdóm eigi ekki að takast í hendur – eitthvað sem gildir um langfæsta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert