Fyrstu ferðamennirnir sem er gert að fara í sóttkví á hótelum við komuna til Englands lentu fyrr í dag á Heathrow-flugvelli.
Allir breskir og írskir ríkisborgarar og fólk sem er búsett í Bretlandi sem kemur til Englands eftir að hafa verið í landi þar sem mikil hætta er á að smitast af Covid-19 þurfa núna að fara í sóttkví á hótelum.
Alls eru 33 lönd á listanum, þar á meðal Portúgal, Brasilía og Suður-Afríka, að sögn BBC.
Þessum nýju reglum er ætlað að koma í veg fyrir að ný afbrigði veirunnar komist inn í landið. Þær eiga við um fólk sem hefur verið í einu af löndunum 33 undanfarna tíu daga.
Þar að auki þarf fólk að framvísa neikvæðu Covid-prófi til að geta stigið um borð í flugvél á leið til Bretlands.