Herinn í Mjanmar hefur hótað þeim sem mótmæla valdaráni í Mjanmar allt að 20 ára fangelsisvist ef þeir hindra framgöngu hersins. Langar fangelsisvistir eru einnig í spilunum fyrir þá sem hvetja til „haturs eða fyrirlitningar“ gagnvart valdaráni hersins.
Lagabreytingarnar sem heimila umrædda fangelsisvistun voru tilkynntar á sama tíma og brynvarðir bílar birtust á götum nokkurra borga í Mjanmar í dag.
Hundruð þúsunda hafa tekið þátt í mótmælum gegn valdaráni hersins síðustu daga. Mótmælendurnir krefjast þess að kjörnum leiðtogum landsins, þar á meðal Aung San Suu Kyi verði sleppt úr haldi og að lýðræði verði aftur komið á í landinu.
Lögmaður Suu Kyi sagði í dag að hún yrði í varðhaldi næstu tvo daga. Hún mun í framhaldinu vera leidd rafrænt fyrir dómara. Suu Kyi er gefið að sök að hafa flutt inn ólöglegar talstöðvar og fengið starfsmenn sína til að nota þær.
Flokkur Suu Kyi vann sigur í kosningum í Mjanmar í nóvember síðastliðnum en herinn segir kosningasvindl hafa átt sér stað. Engar sannanir hafa komið fram í dagsljósið sem styðja þær fullyrðingar hersins.