Spænskur rappari, sem átti að hefja umdeilda níu mánaða fangelsisvist í dag vegna Twitter-færslna, lokaði sig inni í háskóla vestur af Barcelona í morgun til að forðast handtöku.
„Ég hef lokað mig inni í háskólanum í Lleida með nokkrum stuðningsmönnum mínum en yfirvöld munu þurfa að brjótast inn ef þau ætla að handtaka mig og færa mig í fangelsi,“ skrifaði rapparinn Pablo Hasel á Twitter.
Talsmaður háskólans staðfesti að Hasel væri á lóð skólans ásamt um 20 stuðningsmönnum sínum. Hann sagði hins vegar að lögreglan væri ekki viðriðin málið.
Frestur Hasel til að gefa sig fram við lögreglu rann út á föstudaginn en hann var dæmdur fyrir að upphefja hryðjuverkastarfsemi og dreifa lygum gegn stofnunum ríkisins.
Hann sakaði meðal annars lögreglu um að pynta og myrða mótmælendur og flóttafólk.
„Ég neita að fara af sjálfsdáðum og banka á dyr fangelsisins,“ sagði Hasel við AFP á föstudag.
Mörg hundruð spænskir listamenn krefjast þess að Hasel sleppi við fangelsisvist.