Sex ungar konur látist á 4 dögum

Alþjóðasamfélagið er byrjað að setja þrýsting á yfirvöld í Hondúras vegna dauðsfalla sex ungra kvenna á einungis fjórum dögum og hvetja þau til að hefja rannsókn. Mótmæli voru á götum úti um helgina eftir að 26 ára gömul hjúkrunarkona fannst látin í fangaklefa.

Keyla Martinez var handtekin á laugardagskvöldi fyrir rúmri viku fyrir að brjóta gegn útgöngubanni sem yfirvöld settu vegna faraldurs Kórónuveirunnar. Lögregluyfirvöld segja að lögreglumenn hafi komið að henni í klefa sínum þegar hún var að reyna að taka eigið líf.

Ættingjar og vinir Keylu Martinez fylgdu henni til grafar í …
Ættingjar og vinir Keylu Martinez fylgdu henni til grafar í síðustu viku. Málið er orðið pólitískt í landinu og stjórnmálamenn hafa látið hafa eftir sér að rökstuddur grunur sé á því að lögreglumenn hafi komið að dauða Martinez. AFP

Martinez var úrskurðuð látin þegar hún kom á sjúkrahús og saksóknarar segja að krufning hafi leitt í ljós að henging hefði verið dánarorsök Martinez. Í samtali við AFP fréttaveituna segist móðir hennar, Norma Martinez, þó vera sannfærð um dóttir sín hefði verið myrt. 

Um 200 manns fylgdu Normu Martinez í miðbæ La Esperanza í vesturhluta landsins í gær til að krefjast skýringa og réttlætis. „Hún var myrt í fangaklefa Lögreglunnar, þar sem hún hefði átt að vera örugg,“ ítrekar Martinez. 

Málið er hluti af öldu ofbeldis sem skekur landið og beinist gegn konum. Evrópusambandið, Bandaríkin og Sameinuðu Þjóðirnar hafa hvatt yfirvöld í Hondúras til að hefja rannsókn á kynbundnu ofbeldi. Samtökin The Anticorruption Coalition hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þess er krafist að hinir seku verði fundnir svo koma megi í veg fyrir að morðið verði óupplýst líkt og 90% morða á konum í landinu.

Málið hefur vakið sterk viðbrögð og nú er alþjóðasamfélagið farið …
Málið hefur vakið sterk viðbrögð og nú er alþjóðasamfélagið farið að beita yfirvöld í Hondúras þrýstingi vegna þess en kynbundið ofbeldi hefur verið óhugnanlega mikið í landinu um langt skeið. AFP

Samkvæmt tölum frá NAUH háskólanum í landinu hafa 6,045 konur verið myrtar í landinu á undanförnum 16 árum og í það sem af er ári eru þær orðnar 30. Þrýstingnum á rannsókn hefur að einhverju leyti verið svarað og lögreglumennirnir sem voru á vakt þegar Martinez lést eru nú til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert