Úkraínskur karlmaður greindi lögreglu frá morði sem var uppspuni frá rótum í von um að lögregla myndi ryðja burt snjó af götunni þar sem hann býr þegar hún kæmi til að handtaka hann.
Maðurinn, sem býr í útjaðri bæjarins Charnihiv, hringdi í lögreglu á laugardagskvöldið og sagði þeim hann hann hefði myrt eiginmann móður sinnar.
Maðurinn benti lögreglunni enn fremur á að koma á snjóplóg og sagði það einu leiðina til að komast að heimili hans.
Það gerðu lögregluþjónarnir hins vegar ekki.
Við komuna til mannsins sáu þeir að sá sem átti að vera látinn var sprelllifandi og enginn hafði ráiðst á hann. Maðurinn sem hringdi í lögregluna viðurkenndi að hafa hringt vegna þess að hann var ósáttur við snjómoksturinn.
Hann á yfir höfði sér sekt vegna málsins.