Tjón á eldiskvíum í snjóflóði

Stjernøya í Altafirði, suðvestur af Hammerfest. Þar féllu þrjú snjóflóð …
Stjernøya í Altafirði, suðvestur af Hammerfest. Þar féllu þrjú snjóflóð í morgun og skaddaði eitt þeirra laxeldiskvíar í firðinum. Kort/Google

Laxeldiskvíar við Sternøya í Altafirði í Finnmörk í Noregi urðu fyrir tjóni þegar þrjú snjóflóð féllu þar á eyjunni í morgun, þar af eitt sem Eirik Pedersen, aðgerðastjóri staðarlögreglunnar, lýsir sem nokkur hundruð metra breiðu.

Eftir því sem Pedersen upplýsir norska ríkisútvarpið NRK um er ekki talið að fólk hafi orðið fyrir flóðunum, starfsfólk eldisstöðvarinnar var ekki á staðnum þegar þau féllu en kvíarnar urðu fyrir stærsta flóðinu og er nú verið að kanna hvort laxarnir hafi forðað sér út á ögurstundu, en kvíarnar við Sternøya hafa verið undir stífu eftirliti undanfarið vegna laxasjúkdómsins blóðþorra, eða ILA.

Fjórða flóðið í Bremanger

Snjóflóðin á Sternøya eru ekki þau einu í Noregi í morgun því allmikið flóð féll einnig við Magnhildskart-göngin í Bremanger í Vestland-fylki og var um tíma óttast að ein eða fleiri bifreiðar hefðu orðið fyrir því þar sem það féll yfir akveg.

Var björgunarþyrla send á vettvang auk lögreglu, sjúkraliðs og björgunarsveita sem tilkynntu laust fyrir klukkan ellefu í morgun að norskum tíma, að enginn hefði orðið fyrir flóðinu sem auk þess reyndist minna en talið var í fyrstu. Veginum hefur verið lokað beggja vegna flóðsins á meðan hann er ruddur.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert