Forsætisráðherra Ástralíu bað í dag fyrrverandi starfskonu stjórnvalda afsökunar en hún greindi nýverið frá því opinberlega að hafa verið nauðgað á skrifstofu ráðherra í þinginu og þegar hún tilkynnti ódæðið fékk hún ekki stuðning yfirmanna sinna.
Brittany Higgins greindi frá því í viðtali við news.com.au að henni hafi verið nauðgað af starfsbróður á skrifstofu núverandi varnarmálaráðherra, Lindu Reynolds, árið 2019 eftir að hafa farið á bar með vinnufélögum hjá Frjálslynda flokknum.
Higgins tilkynnti ofbeldið til yfirmanns og var henni gert að mæta á fund með yfirmönnum í kjölfarið inni á sömu skrifstofu og henni var nauðgað. Higgins, sem var 24 ára gömul og nýlega byrjuð í draumstarfinu, segir að henni hafi fundist hún þurfa að velja á milli frama í starfi eða fara til lögreglu með málið.
Eftir að greint var frá málinu fór af stað umræða um hvernig komið er fram við konur í áströlskum stjórnmálum, þær eru þolendur eineltis, áreitni og ósæmilegrar hegðunar í þeirra garð.
Higgins segir í viðtali við Channel 10 að henni hafi liðið eins og „pólitísku vandamáli“ sem yrði að leysa og vísaði þar til þess að svo hefði virst sem yfirmönnum hennar hefði þótt óþægilegt ef hún nefndi atvikið í framhaldinu.
Ástralska ríkisstjórnin varði nálgun sína í gær með því að segja að Higgins hafi verið hvött til að tala við lögregluna og að hún nyti stuðnings hver sem ákvörðun hennar yrði. Eins að val á fundarstað hafi verið óheppilegt.
En almenningur sætti sig ekki við þessi svör og hefur verið mikil umræða um málið á samfélagsmiðlum sem og fjölmiðlum í dag. Í kjölfarið brást Morrison við og baðst afsökunar. „Þetta hefði ekki átt að gerast og ég biðst afsökunar,“ sagði hann við fréttamenn í Canberra í dag.
Morrison segir að eftir að hafa rætt við eiginkonu sína og þegið ráð frá henni hafi hann áttað sig á að ekki væri nóg að gert. Hann hefur því sett af stað rannsókn á því hvaða ferli fer af stað ef kvartað er undan kynferðislegu ofbeldi eða áreitni í þinginu og eins vinnustaðamenningu þingsins.
„Þar á ekki að vera þannig andrúmsloft að ungar konur upplifi sig í jafn viðkvæmri stöðu. Það er ekki í lagi,“ segir Morrison.
Higgins þakkaði Morrison fyrir afsökunarbeiðnina en sagði jafnframt að hún hefði ekki átt að neyðast til þess að fara með málið í fjölmiðla til þess að brugðist væri við. Það sé löngu tímabært að skoða vinnustaðamenninguna í þinginu og ásakanir um einelti, áreitni og ósæmilega hegðun gagnvart konum þar.
Ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir stöðu kvenna innan þingsins en nokkrar þekktar þingkonur hættu á þingi fyrir kosningarnar 2019 og vísuðu sumar þeirra til þess að hafa orðið fyrir einelti í þinginu og það hafi verið þáttur í að þær hafi ákveðið að hætta í stjórnmálum.
Morrison brást við þessu með því að fjölga konum í ríkisstjórn og sagði að gripið yrði til frekari aðgerða til að bæta vinnustaðamenninguna á þingi.
Higgins tilkynnti nauðgunina til alríkislögreglunnar nokkrum dögum eftir atvikið en lagði ekki fram formlega kæru. Hún hefur aftur á móti ákveðið að það núna. Maðurinn sem hún sakaði um nauðgun lét af störfum strax eftir að hún upplýsti um nauðgunina á sínum tíma.