Norðurkóreskir hakkarar reyndu að brjótast inn í tölvukerfi lyfjafyrirtækisins Pfizer. Þeir ætluðu sér að finna upplýsingar um kórónuveirubóluefni fyrirtækisins og meðferðartækni þess. Suðurkóreska leyniþjónustan greindi frá þessu í dag.
Norður-Kórea hefur verið í sjálfskipaðri einangrun síðan landamærum landsins var lokað í janúar á síðasta ári í viðleitni til að verja landið fyrir veirunni sem kom fyrst fram í nágrannaríkinu Kína.
Einræðisherrann Kim Jong Un hefur ítrekað fullyrt að engin kórónuveirusmit hafi komið upp í landinu þótt utanaðkomandi sérfræðingar efist um fullyrðingar leiðtogans.
Lokun landsins hefur aukið þrýstinginn á efnahagskerfi landsins sem er illa statt vegna alþjóðlegra refsiaðgerða sem landið hefur verið beitt vegna kjarnorkuvopna þess.
Leyniþjónusta Seúl „sagði okkur frá því að Norður-Kórea hefði reynt að sækja sér vitneskju um tækni sem snýr að Covid-19-bóluefninu og meðferðartækni með því að brjótast inn í tölvukerfi Pfizer“, sagði þingmaðurinn Ha Tae-keung við blaðamenn.
Norður-Kórea er þekkt fyrir að reka her þúsunda vel þjálfaðra tölvuþrjóta sem hafa ráðist á fyrirtæki, stofnanir og vísindamenn í Suður-Kóreu og víðar.