Félagar í hvítrússnesku blaðamannasamtökunum (BAJ) voru handteknir af þarlendum yfirvöldum í dag, húsleitir gerðar á heimilum þeirra og gögn gerð upptæk.
Einnig voru gerðar rassíur á heimilum mannréttindafrömuða í landinu. Frá þessu greinir Franak Viacorka, æðsti ráðgjafi Svetlönu Tsíkanovskaju, á Twitter-síðu sinni.
Þar segir hann að óeinkennisklæddir lögreglumenn hafi ráðist inn á skrifstofur og heimili félaga í BAJ.
Members of the Belarusian Association of Journalists have been arrested this morning. The office has been searched, the computer equipment confiscated by “police officers” without uniform. The apartments of the leaders of BAJ have been searched as well. pic.twitter.com/1nMeEg3TAq
— Franak Viačorka (@franakviacorka) February 16, 2021
Tsíkanovskaja er af mörgum talin réttmætur leiðtogi Hvíta-Rússlands en hún beið ósigur í forsetakosningum í landinu í fyrra. Gríðarleg mótmælaalda upphófst í kjölfarið þar sem afsagnar forseta landsins, Alexander Lúkasjenkó, var krafist.
Flest Evrópuríki, þar á meðal Ísland, fordæmdu niðurstöður kosningarinnar og viðurkenndu ekki sigur Lúkasjenkós.
Tsíkanovskaja flúði land í kjölfar kosninganna og hefur heimsótt og rætt við leiðtoga fjölmargra Evrópuríkja síðan.