Rassíur gerðar á heimilum blaðamanna

Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands.
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands. AFP

Félagar í hvítrússnesku blaðamannasamtökunum (BAJ) voru handteknir af þarlendum yfirvöldum í dag, húsleitir gerðar á heimilum þeirra og gögn gerð upptæk.

Einnig voru gerðar rassíur á heimilum mannréttindafrömuða í landinu. Frá þessu greinir Franak Viacorka, æðsti ráðgjafi Svetlönu Tsíkanovskaju, á Twitter-síðu sinni.

Þar segir hann að óeinkennisklæddir lögreglumenn hafi ráðist inn á skrifstofur og heimili félaga í BAJ.

Tsíkanovskaja er af mörgum talin réttmætur leiðtogi Hvíta-Rússlands en hún beið ósigur í forsetakosningum í landinu í fyrra. Gríðarleg mótmælaalda upphófst í kjölfarið þar sem afsagnar forseta landsins, Alexander Lúkasjenkó, var krafist.

Flest Evrópuríki, þar á meðal Ísland, fordæmdu niðurstöður kosningarinnar og viðurkenndu ekki sigur Lúkasjenkós.

Tsíkanovskaja flúði land í kjölfar kosninganna og hefur heimsótt og rætt við leiðtoga fjölmargra Evrópuríkja síðan.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert