„Smá snjór“ og allt farið á hliðina

Vetur konungur hefur minnt á sig víða í Bandaríkjunum síðustu …
Vetur konungur hefur minnt á sig víða í Bandaríkjunum síðustu daga. Hér má sjá nokkra vaska kappa ýta bíl. AFP

„Bærinn virðist ekki eiga nein snjómoksturstæki og það er ekki búið að skafa neitt,“ segir Hildur Ásgeirsdóttir við mbl.is. Hún og dóttir hennar eru staddar í heimsókn hjá syni hennar í Portland á vesturströnd Bandaríkjanna þar sem ýmislegt hefur gengið á vegna frosts og snjóa undanfarna daga.

Þær komu til Portland síðastliðinn föstudag og þá hafði snjóað í nokkra daga. Eins og sönnum Íslendingi sæmir fannst Hildi snjórinn þó ekki það mikill en áttaði sig á því í leigubíl frá flugvellinum að nokkrir sentimetrar af snjó í Portland er annað en hér á landi.

Reyndu að losa bíl með fægiskóflu

Degi síðar hafði Hildur fengið bíl lánaðan til að skutla syni sínum til vinnu. Hildur tilkynnti að hún væri mjög vön því að keyra í snjó og ætlaði að tæta af stað.

Mér tókst að keyra bílinn um það bil 20 metra niður smá halla í innkeyrslunni þangað til ég festi hann í dæld og komst ekki hænufet, hvorki fram né aftur.“

Þarna hafði hún fest bílinn í innkeyrslu við fjölbýlishús og notuðu hún, sonur hennar og vinur eina sjáanlega verkfærið; fægiskóflu, til að losa bílinn.

Það þarf varla að taka það fram að það var algjörlega vonlaust. Loksins kom nágranni sem hafði fylgst með okkur með garðskóflu og gátum við mokað nóg með henni til að færa bílinn til hliðar,“ segir Hildur.

Hildur Ásgeirsdóttir.
Hildur Ásgeirsdóttir. mbl.is/Ásdís

Á sunnudeginum fór rafmagnið af hjá að minnsta kosti fjórðungi borgarbúa eftir mikla ísingu sem settist á rafmagnslínur. Öll hús eru hituð með rafmagni og því var aðfaranótt mánudags býsna kuldaleg hjá Hildi, sem þakkar þó fyrir góðar dúnsængur.

Hildur og dóttir hennar dvöldu á hóteli síðustu nótt en þar er rafmagn og hiti. „Við verðum kannski aðra nótt því hver veit hvenær rafmagnið verður komið á?“ segir Hildur í kuldanum vestanhafs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert