Ríkisstjórn Hollands er gert samkvæmt dómsúrskurði að aflétta útgöngubanni sem er í gildi í landinu. Þetta er niðurstaða Héraðsdómstóls Haag í dag. Telur dómstóllinn að ríkisstjórnin hafi misnotað valdheimildir sínar.
Mikil mótmæli brutust út í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að setja á útgöngubann frá klukkan 21 til 4:30 frá 23. janúar. Þetta er fyrsta útgöngubannið sem er sett í landinu frá því í seinni heimsstyrjöldinni er nasistar hernámu landið.
Í yfirlýsingu frá dómstólnum í Haag segir að aflétta þurfi útgöngubanninu strax. Það sé brot á ferðafrelsi og um leið friðhelgi einkalífsins.
Ríkisstjórnin getur áfrýjað niðurstöðunni en enginn áfrýjunardómstóll getur fell niður niðurstöðu dómstólsins. Ekki hafa borist viðbrögð frá ríkisstjórninni en útgöngubannið var í síðustu viku framlengt til 2. mars.
Dómstóllinn taldi að ekki hefði verið rétt staðið að lagasetningunni. Ekki hefði verið um svo bráða nauðsyn að ræða að fara hefði þurft fram hjá efri og neðri deild þingsins við ákvörðunina. Útgöngubann eigi að setja í neyðartilvikum eins og þegar stíflugarðar bresta svo dæmi séu tekin að sögn dómara.