24,8 stiga frost í Grikklandi

Alhvít jörð á Akrópólis-hæðinni er ekki algeng sjón en mjög kalt er í Grikklandi þessa dagana. Unnið er að því hörðum höndum að koma á rafmagni hjá íbúum Aþenu en talið er að 250 þúsund íbúar séu án rafmagns. Frostið fór niður í 24,8 stig skammt fyrir utan borgina Florina í norðvesturhluta landsins. Í gær var 19 stiga frost þar. 

Lycabettus-hæðin.
Lycabettus-hæðin. AFP

Þrír hafa látist í vetrarhörkunum en bæði hefur snjóað mikið og eins verið mjög hvasst. Samkvæmt upplýsingum frá borgaryfirvöldum í Aþenu er mjög erfitt að halda utan um þann fjölda heimila sem eru án rafmagns þar sem unnið er að viðgerð. Bara í Aþenu hafa 900 tré brotnað undan snjóþunganum og í rokinu. Herinn tekur þátt í hreinsunarstarfi í borginni en ekki hefur snjóað jafnmikið í Aþenu síðan árið 2008. 

Aþena í morgun.
Aþena í morgun. AFP

Almannavarnir segja að mikill fjöldi rafmagnsstaura og -lína hafi skemmst en viðgerð gangi vel. Tveir eldri menn sem voru báðir með öndunarfærasjúkdóm létust á eyjunni Evia í gær vegna þess að súrefnisvélar þeirra hættu að virka í rafmagnsleysinu. Bóndi um sextugt fannst látinn í snjónum fyrir utan hlöðu sína á Krít í gær. Þremur bændum, sem var saknað á Krít, tókst að komast í skjól í dag að því er segir í frétt ANA.

Vegna veðurs varð að aflýsa öllum bólusetningum í gær í Aþenu. Ríkisstjórnin var harðlega gagnrýnd í gær fyrir að senda snjóruðningstæki í Kolonaki-hverfið þar sem mörg sendiráð eru til húsa og margir starfsmenn ráðuneyta búsettir á meðan nánast ekkert var rutt í öðrum hverfum.

Frá Þessalónikíu í dag.
Frá Þessalónikíu í dag. AFP
Kort/Google
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert