Deila um leyndarhyggju

Erna Solberg forsætisráðherra er meðal þeirra sem gefið hafa kórónuveirunefnd …
Erna Solberg forsætisráðherra er meðal þeirra sem gefið hafa kórónuveirunefnd norskra stjórnvalda, Koronakommisjonen, munnlega skýrslu. Nefndin verst allra frétta af framburði skýrslugjafanna og ríkja skiptar skoðanir um leyndina. AFP

Norska ríkisútvarpið NRK vekur athygli á því í frétt í morgun, að kórónuveirunefnd norskra stjórnvalda, Koronakommisjonen, verjist allra frétta af framburði þeirra aðila sem gefið hafi nefndinni munnlegar skýrslur nýverið og neiti fréttamönnum um upptökur af skýrslugjöfinni, endurrit þeirra eða aðrar efnislegar upplýsingar.

Skýrslugjafarnir sem NRK vísar til eru Erna Solberg forsætisráðherra, Bent Høie heilbrigðisráðherra, Camilla Stoltenberg, forstöðurmaður Lýðheilsustofnunar Noregs, Preben Aavitsland, yfirlæknir sömu stofnunar, Bjørn Guldvog, forstöðumaður Heilbrigðisstofnunar Noregs, og Espen Nakstad, aðstoðarforstöðumaður stofnunarinnar.

Kveður nefndin um innanhússgögn stjórnvalds að ræða sem undanþegin séu upplýsingaskyldu, ekki einu sinni ráðherrarnir tveir hafi fengið endurrit framburðar síns, eingöngu lesið þau og undirritað til samþykkis.

Farið í leikfimi

Jan Fridthjof Bernt, prófessor emerítus í lögum við Háskólann í Bergen, kallar háttsemi nefndarinnar leikfimi og kveður hana ganga í berhögg við tilgang og meginreglur upplýsingalaganna frá 2009.

„Hér er ekki tekið tillit til hefðbundinna málsmeðferðarreglna heldur er tilgangurinn að fá að starfa í friði og láta ekki óþægilega opinberun [n. ubehagelig innsyn] trufla,“ segir prófessorinn um starfshætti kórónunefndarinnar.

„Hér er farið í leikfimi til að ná fram niðurstöðu sem að mínu viti gengur gegn tilgangi og meginreglum laganna [...] Þetta eru ekki lögmæt sjónarmið að mínu viti,“ segir hann enn fremur.

Ingvild Kjerkol, heilbrigðismálafulltrúi Verkamannaflokksins, tekur í sama streng og segir ekki réttlætanlegt að halda framburði þjóðkjörinna fulltrúa og forstöðumanna stofnana á sviði heilbrigðismála leyndum.

„Við teljum að skýrslugjöfin eigi að vera algjörlega uppi á borði. Það sem stjórnarliðar og forstöðumenn heilbrigðiskerfisins, sem ábyrgð bera á viðsjárverðum tímum, eru að hugsa og hvernig þeir lesa aðstæðurnar á að vera opinbert,“ segir Kjerkol og vísar til Gjørv-nefndarinnar máli sínu til stuðnings, rannsóknarnefndar um hryðjuverk Anders Breivik árið 2011, sem birti alla framburði stjórnmálamanna sem fyrir hana komu.

Hætt við mistúlkun

Stener Kvinnsland, formaður veirunefndarinnar, neitar hins vegar að ræða leyndarhyggju nefndarinnar við NRK, en svarar því til í tölvupósti að nefndin fari að upplýsingalögum.

„Þetta hefur ekkert með óþægilega opinberun að gera heldur snýst um að nefndin þarf að framkvæma heildstætt mat. Hætt er við mistúlkun ef verið er að opinbera einstaka framburði án frekara samhengis,“ skrifar Kvinnsland.

Camilla Stoltenberg kveðst ekki hafa lesið yfir sinn framburð enn sem komið er og segist enga skoðun hafa á sjónarmiðum nefndarinnar um málsmeðferð. „Mér þætti þó óeðlilegt að ég fengi ekki að sjá minn framburð áður en aðrir fengju upplýsingar um hann,“ segir hún og enn fremur að hún vilji ekki tjá sig um birtingu upplýsinganna á síðari stigum.

„Ég þarf að fá vitneskju um hvað liggur til grundvallar mati þeirra [nefndarinnar] og hvað sé ætlunin að gera við þessar upplýsingar er fram líða stundir. Mér er ekki kunnugt um að ætlunin sé að halda einhverju leyndu til lengri tíma,“ segir Stoltenberg að síðustu.

NRK

NRKII (umræður um málið á Stórþinginu í haust)

Dagens Perspektiv

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert