Fyrr í þessum mánuði krafðist Meena Harris, frænka varaforseta Bandaríkjanna, Kamölu Harris, þess í tísti á Twitter að Nodeep Kaur, 25 ára indverskum aðgerðasinna, yrði sleppt úr haldi lögreglunnar.
Hún hefur setið á bak við lás og slá í rúman mánuð og hefur handtakan vakið mikla reiði víða um heim.
Með því að tísta undir myllumerkinu #ReleaseNodeepKaur skrifaði Harris að Nodeep hefði verið „handtekin, pyntuð og að brotið hefði verið á henni kynferðislega í varðhaldi hjá lögreglunni“.
Nokkrum dögum síðar vakti þingmaður breska Verkamannaflokksins, Singh Dhesi, athygli á málinu á þinginu, að sögn BBC.
Þúsundir til viðbótar hafa tíst um málið og hafa leiðtogar bændasamtaka og stúdenta í norðurindverska ríkisinu Punjab sýnt samstöðu með Nodeep.
Í dag verður beiðni hennar um lausn gegn tryggingu tekin fyrir í Hæstarétti í Punjab. Þar fyrir utan hefur dómstóllinn hafið nýtt dómsmál og krafið lögregluna í ríkinu Haryana um útskýringar á „ólöglegri fangelsun“ hennar eftir að fregnir bárust af því að hún hefði verið pyntuð í varðhaldi.
Nodeep var handtekin 12. janúar þegar hún tók þátt í mótmælum fyrir utan verksmiðju í útjaðri Delí, höfuðborgar Indlands.
Nodeep hóf mótmælin eftir að hafa verið að störfum skammt frá staðnum þar sem þúsundir bænda hafa síðan í lok nóvember mótmælt nýjum lögum sem er ætlað að rýmka reglur í kringum sölu, verðlag og geymslu landbúnaðarafurða.
Stjórnvöld hafa boðist til þess að fresta innleiðingu laganna um 18 mánuði en bændurnir vilja að hætt verði við þau.