„Þetta er eins og svarthol“

Kaitlin Denis veiktist af Covid-19 fyrir tæpu ári. Hún er …
Kaitlin Denis veiktist af Covid-19 fyrir tæpu ári. Hún er enn að glíma við eftirköstin. AFP

„Ég hef verið veik í að minnsta kosti 330 daga,“ segir Kaitlin Denis í umfjöllun Washington Post um þá sem hafa veikst af Covid-19. Hún segist hafa smitast áður en nokkur dó af völdum veirunnar í Illinois. „Það er eins og það hafi verið fyrir öld. Nú erum við að tala um eitt ár, tvö? Bóluefni, ný afbrigði, ný stjórnvöld en fyrir mig er þetta allt við það sama. Ég er alltaf í rúminu. Ég er alltaf í þessu herbergi,“ segir Denis.

Kaitlin Denis Wood og Tobey Wood.
Kaitlin Denis Wood og Tobey Wood. Skjáskot af Facebook

Hún segir að upplifun hennar minni helst á fangelsisvist og fanga sem merkir afplánaða daga á vegginn.

Denis segir að hún hafi fyrst hugsað áður en hún fór að sofa; á morgun, á morgun fer mér að líða betur. En hún hugsar ekki lengur um morgundaginn. Hún reyni frekar að sætta sig við þá staðreynd að veiran sé ekki eitthvað sem hún kemst yfir. Kannski verði líf hennar áfram svona. 

Að sögn Denis er hún ein þeirra sem eru langveikir af völdum Covid-19. Læknar telji að þau séu fleiri tugþúsundir en í raun viti það enginn. „Þetta er leyndardómur læknavísindanna,“ segir hún og lýsir því að þetta sé eins og að fá fullan poka af sjúkdómum og þú hefur ekki hugmynd um hvaða sjúkdómur muni herja á þig. Svo sem ógleði, síþreyta, mígreni, beinverkir, örmögnun frá toppi til táar. Þetta er það sem er stöðugt en svo eru önnur einkenni sem koma og fara. Svo sem eyrnaverkur, eymsli í rifbeinum, hjartsláttartruflanir, doði í fingrum, offramleiðsla á munnvatni, svimi og heilaþoka. 

„Hvað var ég að hugsa?“

„Minnistapið er svo slæmt stundum að það er eins og ég sé með heilaglöp,“ segir Denis og lýsir því hvernig hún hafi farið á fætur og ætlað að klæða sig í hlaupafötin. „Í hausnum á mér taldi ég að ég væri að fara út að skokka og síðan á leið í vinnuna. En um leið og ég stóð upp þá byrjuðu hjartsláttartruflanirnar og já ég get ekki einu sinni gengið í kringum húsið án hjálpar. Ég er ekki lengur með vinnu og komin á örorku. Hvað var ég eiginlega að hugsa?“ segir Denis.  
Kaitlin Denis Wood æfði knattspyrnu.
Kaitlin Denis Wood æfði knattspyrnu. Ljósmynd Fairfield- háskólinn

Hún segir að það sé oft þannig að hún fari varla á fætur, dagurinn hefst aldri og nóttinni lýkur ekki. „Þetta er eins og svarthol.“

Fyrir áratug keppti hún í knattspyrnu en núna kemst hún varla út í matvörubúð án aðstoðar. Hún er um þrítugt og ekki langt síðan hún gekk í hjónaband.

Denis smitaðist af Covid-19 í byrjun mars í fyrra. Á þeim tíma var enginn með grímu. Þetta byrjaði með höfuðverk og særindum í hálsi. Á þessum tíma starfaði hún í fjármálageiranum og var með mikið keppnisskap. 
Eiginmaður hennar geri stundum grín að því að hún kunni ekki að slaka á og bara það að standa í biðröð eftir kaffi á Starbucks á eftir fólki sem veit ekki hvað það ætlar að panta geri hana brjálaða. Þetta er ekki sama manneskan og núna reynir að láta dagana líða, heima uppi í rúmi. 

Fékk verkjalyf og send heim

Hún reyndi að vinna þangað til hún fékk háan hita og svo veiktist eiginmaður hennar. Hún hafi haft samband við hjálparlínu varðandi Covid en sagt að fara á bráðamóttöku. Þar var ekki hægt að komast í sýnatöku en hún ætti að gera ráð fyrir því að vera með kórónuveiruna. „Þau gáfu mér verkjalyf og sendu mig heim.“
Hún segir að þau hafi bæði þurft á pústi að halda vegna öndunarerfiðleika og ekki farið út fyrir hússins dyr í 20 daga. Þau hafi jafnvel rifist um hvort þeirra færi á fætur til að gefa hundunum að éta. En eftir nokkrar vikur fór manni hennar að batna. Annað en henni. 
Hún píndi sig áfram í vinnu án þess að geta haldið fókus. Minnið var gloppótt og höfuðverkurinn skelfilegur. Undanfarið hálft ár hefur hún hitt fleiri lækna en hún gerði fyrstu 30 ár ævinnar. Í dag er hún á lyfjum og eiginmaður hennar verður að halda utan um lyfjagjöfina því það er of flókið fyrir hana eins og ástandið er. 
Eins og staðan er í dag veit enginn hvenær eða hvort hún muni ná bata. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert