Útrýming gyðinga hófst fyrr en áður var talið

Skjáskot úr sovésku kvikmyndinni Auschwitz, sem gefin var út árið …
Skjáskot úr sovésku kvikmyndinni Auschwitz, sem gefin var út árið 1945. Hér sjást börn sem lifðu af helförina, í Auschwitz. AFP

Hingað til hefur verið talið að útrýming nasista á gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni hafi ekki hafist með skipulögðum hætti fyrr en árið 1942. Í nýrri bók kemur þó fram að yfir 100 hollenskir gyðingar hafi verið drepnir í þar til gerðum búðum nasista rúmu ári áður, eða árið 1941.

Í nýrri bók sagnfræðingsins Wally de Lang er farið yfir þessa atburði. De Lang segir í bók sinni að í febrúar árið 1941 hafi 108 hollenskir gyðingar hafi verið myrtir í útrýmingarbúðum nasista í Mauthausen í Austurríki.

Þýskaland réðist inn í Holland í maímánuði 1940 og hingað til hefur einungis verið talið að útrýming gyðinga landsins hafi hafist í Auschwitz árið 1942. Þar var rúmlega 75% allra hollenskra gyðinga útrýmt.

„Við höfum alltaf haldið að fyrsta lestin til útrýmingarbúðanna hafi farið í júlí 1942 en útrýmingin hafði þegar hafist 27. febrúar 1941, sem er mun fyrr en upphaflega var talið,“ sagði de Lang við BBC.

Dánarvottorð gyðinga fölsuð

Tugir gyðinga létust strax í Buchenwald, þar sem þeir voru nauðugir látnir vinna við námugröft. Þann 22. maí 1941 voru 340 hollenskir gyðingar svo sendir til Mauthausen, nær Hartheim-kastala í Austurríki. Kastalanum hafði árið 1940 verið breytt í miðstöð manndráps og þjáningar, þar sem 30 þúsund einstaklingum með þroskaskerðingu og fatlanir var útrýmt eða þar til ákall almennings varð til þess að útrýmingunni var hætt.

Frá árinu 1941 voru síðan starfræktar útrýmingarbúðir í Hartheim-kastala þar sem gyðingar, sem ekki gátu lengur unnið í þrælabúðum nasista, voru drepnir með eiturgasi.

De Lang segir í bók sinni að nasistar hafi drepið gyðinga með eiturgasi á tvo vegu; bæði um borð í rútu á leið í kastalann og þegar þangað var komið, þar sem upp voru settar sérstakar búðir svo enginn gæti séð hvað færi þar fram.

De Lang komst að niðurstöðu sinni með því að rýna í gömul þýsk skjöl sem sýndu fram á að fórnarlömb nasista við Hartheim-kastala dóu mörg hver á aðeins einum degi og þá bentu dánarvottorð þeirra til þess að dánarorsök þeirra hafi verið fölsuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka