Dómstólar í Hvíta-Rússlandi hafa dæmt tvær fréttakonur í tveggja ára fangelsi fyrir að mynda mótmæli sem beindust gegn forseta landsins, Alexander Lúkasjenkó.
Hinar dæmdu, Katerina Andreyeva og Daria Chultsova, 27 ára og 23 ára að aldri, starfa hjá pólsku fréttastofunni Belsat TV, að því er BBC greinir frá.
Fjöldamótmæli brutust út eftir að Lúkasjenkó lýsti yfir sigri í forsetakosningum í Hvíta-Rússlandi í ágúst síðastliðnum, þar sem fjöldi fólks taldi brögð hafa verið í tafli í kosningunum. Lögreglan þar í landi þótti sérstaklega harkaleg í garð borgaranna og var fjöldi mótmælenda handtekinn í átökunum.