Styrkja COVAX um fjóra milljarða dala

Joe Biden Bandaríkjaforseti breytir um stefnu í alþjóðlegum bólusetningarmálum.
Joe Biden Bandaríkjaforseti breytir um stefnu í alþjóðlegum bólusetningarmálum. AFP

Bandaríkin munu styrkja alþjóðlega bólusetningarverkefnið Covax um fjóra milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði um 518 milljarða íslenskra króna. Búist er við að Joe Biden forseti muni tilkynna um þetta á fundi G7-ríkjanna á morgun.

Covax snýr að því að tryggja öllum þjóðum heims aðgang að bóluefni við Covid-19. Megináhersla verkefnisins er að verr sett ríki heims geti fjármagnað kaup á nauðsynlegum bóluefnum.

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hugðist ekki styrkja Covax-verkefnið, að því er kemur fram í umfjöllun Washington Post. Sú afstaða var í takt við erjur hans við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina. Annars hafa 190 ríki skráð sig í verkefnið.

Bandaríkin munu fyrst láta tvo milljarða dala af hendi í beinhörðu en svo nýta hina tvo milljarðana til að knýja á um að aðrar efnaðar þjóðir leggi sitt af mörkum til átaksins. 

Framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Tedros Adhanom Ghebreyesus, lýsti á dögunum yfir þungum áhyggjum af því að heimurinn væri á mörkum meiri háttar siðferðisbrestar, ef ekki tækist að koma á sem jafnastri dreifingu bóluefnisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert