Útsendarar Norður-Kóreu stálu 1,3 milljörðum dala

Bandaríksa dómsmálaráðuneytið segir þrjá norður-kóreska leyniþjónustumenn hafa komist yfir 1,3 …
Bandaríksa dómsmálaráðuneytið segir þrjá norður-kóreska leyniþjónustumenn hafa komist yfir 1,3 milljarða bandaríkjadala með netárásum. AFP

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur í dag ákært þrjá leyniþjónustumenn norðurkóreska ríkisins vegna stuldar á gjaldmiðlum og rafmynt að verðmæti 1,3 milljarðar bandaríkjadala, jafnvirði 169 milljarða íslenskra króna. Var verðmætunum stolið frá bönkum, fjármálastofnunum og einstaklingum.

Á sjö ára tímabili notuðu mennirnir forrit sem gat opnað svokallaðar „bakdyr“ í tölvum fórnarlamba og þannig brotist inn í fyrirtæki sem markaðssetja og eiga viðskipti með stafræna gjaldmiðla eins og bitcoin. Þá nýttu þeir blockchain-tækni til að óhindrað safna fé á laun, að því er fram kemur í máli dómsmálaráðuneytisins þar vestra.

Ákærurnar nú tengjast fyrri málum gegn Park Jin Hyok, einum hinna þriggja útsendara Norður-Kóreu. Hyok var ákærður 2018 fyrir netárás gegn kvikmyndaframleiðandanum Sony pictures árið 2014, gerð vírussins WannaCry og að hafa stolið 81 milljón bandaríkjadala úr seðlabanka Bangladess árið 2016. Hinir tveir sem ákærðir eru eru Jon Chang Hyok og Kim Il.

Þremenningarnir eru sagðir hafa stolið fé úr rafrænum myntmarkaði í Slóveníu og Indónesíu, auk þess sem þeir eru sagðir hafa beitt fjárkúgun gegn ómnefndum markaði í New York og haft úr því 11,8 milljónir bandaríkjadala. Þá náðu þeir 6,1 milljón bandaríkjadala úr hraðbönkum BankIslami í Pakistan með því að brjótast inn í tölvukerfi bankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert