Ný gögn frá Kína benda til þess að kórónuveiran hafi byrjað að dreifast án þess að vekja athygli í Wuhan í nóvember áður en tilfellum fjölgaði mikið á nokkrum mismunandi stöðum í borginni í desember, en yfirvöld í Kína segja enn að fyrsta tilfellið sé frá 8. desember, jafnvel þótt vísindaleg gögn sýni að fyrsta greinda tilfellið sé frá 1. desember.
Sérfræðingar hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) telja að fyrstu smitin geti jafnvel hafa verið frá því í september. Þetta kemur fram í umfjöllun Wall street journal þar sem meðal annars er rætt við sex sérfæðinga WHO sem fóru í fjögurra vikna ferð til Kína þar sem gögnum var safnað til að reyna að varpa ljósi á upphaf faraldursins. Kínverjar neita enn þá að afhenda WHO grunngögn um þá fyrstu sem smituðust.
Samtals hafa kínversk yfirvöld staðfest að 174 tilfelli kórónuveirunnar hafi komið upp í Wuhan í desember 2019, en sérfræðingar WHO segja þær tölur nægja til að sýna fram á að mörg tilfelli hafi verið þar á undan, jafnvel þótt það hafi verið vægari tilfelli.
Sérfræðingar WHO telja að tvö afbrigði af þrettán sem hafa verið skoðuð frá því í desember hafi byrjað að kvíslast um miðjan nóvember og fram í byrjun desember. Slíkt gæfi til kynna að upphaflegu smitin gætu náð alla leið aftur í september segir Marion Koopmans, hollenskur veirufræðingur í WHO-teyminu sem fór til Kína. Ummæli annarra í teymi WHO eru á svipaðan veg og gefa í skyn að veiran hafi grasserað í einhvern tíma áður en hún var fyrst greind.
Þetta svipar til þess sem gerðist í New York og á Norður-Ítalíu, þar sem veiran grasseraði í litlum klösum í nokkrar vikur áður en faraldurinn sprakk út.
WHO hefur óskað eftir því við kínversk yfirvöld að fá blóðsýni úr þúsundum sjúklinga sem höfðu flensueinkenni á mánuðunum fyrir desember og grunnsjúkragögn um sjúklingana. Vill stofnunin með þessu reyna að átta sig betur á því hversu víða veiran dreifði sér áður en fyrsta tilfellið var greint 8. desember. Hingað til hafa kínversk yfirvöld ekki viljað afhenda þau gögn.
Liang Wannian, formaður Covid-19-sérfæðihóps kínverskra heilbrigðisyfirvalda, sagði í síðustu viku að það væru engin gögn sem sýndu fram á að veiran hafi dreift úr sér í Wuhan fyrir desember, en hann játaði þó að greining á veirunni frá þessum fyrstu stigum benti til þess að strax þá hefðu verið nokkur afbrigði.
Niðurstöður WHO hafa vakið upp viðbrögð annarra ríkja líkt og Bandaríkjanna og Bretlands sem hafa gagnrýnt ógagnsæi af hálfu kínverskra yfirvalda.