20% Stokkhólmsbúa talin með mótefni

FImmti hver Stokkhólmsbúi er með mótefni gegn kórónuveirunni, ef marka …
FImmti hver Stokkhólmsbúi er með mótefni gegn kórónuveirunni, ef marka má rannsókn vísindamanna við Karólínska sjúkrahúsið. AFP

Um 20% íbúa Stokkhólms hafa myndað með sér mótefni gegn kórónuveirunni. Þetta er mat vísindamanna við Karólínska sjúkrahúsið í borginni, sem hafa rannsakað mótefni í blóði Stokkhólmsbúa. SVT greinir frá.

Rannsakendur hafa mælt mótefni í blóðprufum blóðgjafa og óléttra kvenna allt frá mars í fyrra fram í desember, og vigtað niðurstöðurnar þannig að þær eigi að gefa rétta mynd á alla borgarbúa. Sýna þær að hlutfall fólks með mótefni var um 7% í upphafi sumars en náði 15% í desember.

Gunilla Karlsson Hedestam, prófessor í veirufræði við Karólínska og einn vísindamannanna að baki rannsókninni, segir aukninguna ekki koma á óvart enda hafi verið mikil og stöðug útbreiðsla veirunnar frá því í sumar. Talið sé að nú, um miðjan febrúar, sé hlutfallið komið upp í 20%.

Snemma í kórónuveirufaraldrinum var mikið rætt um hugmyndir um að ná uppi hjarðónæmi í samfélagi með því að leyfa kórónuveirunni að leika að mestu lausum hala. Voru Svíar sagðir stefna að því í ljósi þess hve slakar sóttvarnareglur hafa verið í landinu í samanburði við önnur ríki. Stefan Löfven forsætisráðherra hefur þó sagt að það hafi aldrei verið markmiðið. 

Karl Gústaf Svíakonungur var bólusettur í vikunni.
Karl Gústaf Svíakonungur var bólusettur í vikunni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert