Bresk-ameríska tóbaksfyrirtækið BAT áformar að verja um einum milljarði punda á næstu misserum, um 180 milljörðum króna, til að markaðssetja nikótínpúða víðsvegar um heiminn. Þetta sýna rannsóknir blaðamanna hjá samtökunum Bureau of Investigative Journalism, en Guardian greinir frá.
Á næstu þremur árum væntir fyrirtækið þess að herja á um 500 milljónir nikótínfíkla sem koma til með að eyða um 100 milljörðum punda í neysluna. Aðrar vörur en sígarettur eiga að drífa þann vöxt.
BAT hefur um árabil framleitt sænskt snus, eða frá því fyrirtækið tók yfir Scandinavian Tobacco Group. Aðeins eru um þrjú ár síðan nikótínpúðarnir fóru að ryðja sér til rúms þar í landi, sem einhvers konar „hollari“ og nútímalegri útgáfa af snusi. Púðarnir innihalda ekkert tóbak en eru sneisafullir af nikótíni. Pokarnir hafa rutt sér til rúms hér á landi, en í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins var rætt við ungan mann sem lýsir fíkninni.
Opinberlega er það sýn fyrirtækisins BAT að með púðunum sé boðið upp á hollari valkost fyrir reykingamenn, sem flestir eru sammála um að púðarnir séu. Á þeim forsendum hefur fyrirtækið barist gegn reglum um púðana og aðrar nikótínvörur.
Í fjárfestakynningum, sem rannsóknarblaðamennirnir hafa komið höndum yfir, má þó sjá að markmiðið er fyrst og fremst að laða að nýja neytendur. Hefur BAT mikla trú á þessari nýjung og öðrum vörum sem þeir kalla „næstu kynslóð af vörum“ og eiga þá við nikótínvörur sem ekki innihalda tóbak. Í fjárfestakynningu stæra stjórnendur sig af því að hafa bætt við átta milljónum neytenda slíkra „næstu kynslóðar vara“ frá árinu 2017.
„Fjöldi nikótínnotenda heldur áfram að vaxa,“ segir þar, en farið er yfir hvernig fjöldi notenda dróst saman í upphafi aldar til ársins 2012. Síðan þá hefur hann vaxið ár frá ári, fyrst með tilkomu rafsígarettna og nú púðanna.
Farið er yfir það í grein Guardian hvernig áhrifavaldar um allan heim auglýsa vöruna, hvort sem er gegn greiðslu eða óbeint. Á samfélagsmiðlinum TikTok má til að mynda finna fjölda myndbanda undir myllumerkinu #lyftsnus sem samanlagt hafa milljónir áhorfa.
Rætt er við 18 ára sænska stelpu sem segir að yfir helmingur stelpna í bekknum hennar noti Lyft, sem sé mun meira aðlaðandi en gamla munntóbakið. „Það er þessi áhrifavaldastemning við Lyft sem er svo kúl,“ segir hún.