Vilja að morðrannsóknin verði opnuð að nýju

Malcolm X, til hægri, ásamt Martin Luther King.
Malcolm X, til hægri, ásamt Martin Luther King. Ljósmynd/Wikipedia.org

Dætur bandaríska baráttumannsins Malcolm X hafa farið þess á leit að rannsóknin á morðinu á Malcolm verði opnuð að nýju í ljósi nýrra sönnunargagna. 

Í bréfi sem skrifað var á dánarbeði manns sem var lögregluþjónn árið 1965 þegar Malcolm var myrtur kemur fram að lögreglan í New York og bandaríska alríkislögreglan hafi staðið að morðinu. Lögregluþjóninn, Raymond Wood, segir í bréfinu að hann hafi átt að tryggja að öryggisverðir Malcolm væru handteknir daginn áður en hann var skotinn til bana á Manhattan, að því er fjölskylda Malcolm heldur fram. 

Þrír menn voru sakfelldir fyrir morðið. Þeir voru allir hluti af pólitísku og trúarlegu hreyfingunni Þjóð íslams (e. Nation of Islam). Malcolm hafði áður verið andlit hreyfingarinnar, en hafði í aðdraganda dauða síns talað fyrir nokkuð breyttum boðskap. 

Í bréfinu sem fjölskylda Malcolm vill að verði skoðað segir að lögreglan í New York og alríkislögreglan hafi hylmt yfir sönnunargögn tengd morðinu 21. febrúar 1965. Wood heldur því fram að hann hafi átt að tryggja að Malcolm hefði enga öryggisverði á hótelinu í Harlem þar sem hann var myrtur, en hann var þar staddur til að flytja ræðu. 

Fjölskylda Wood sagði á blaðamannafundi á laugardag að Wood hefði ekki viljað gera bréfið opinbert fyrr en að sér látnum þar sem hann óttaðist afleiðingarnar. 

Frétt BBC. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert