Andrés Manuel López Obrador, forseti Mexíkós, gagnrýndi í dag spænsk stjórnvöld fyrir fangelsun á rappara þar í landi vegna umdeildra twitterfærslna.
Spánverjinn Pablo Hasél var handtekinn í síðustu viku, og honum gert að sæta níu mánaða fangelsisvist eftir að hafa verið fundinn sekur um að vegsama hryðjuverk, og fyrir ærumeiðandi ummæli í garð spænsku krúnunnar og ríkisstofnana.
Málið snerist um röð twitterfærslna þar sem Hasél kallaði Spánarkonunginn fyrrverandi, Jóhann Karl fyrsta, mafíuleiðtoga og sakaði lögreglu um að hafa pyntað og myrt mótmælendur og flóttamenn.
„Það er valdfrekur verknaður að fangelsa tónlistarmann fyrir eitthvað sem talið er hafa mögulega móðgað konunginn,“ sagði López Obrador forseti á blaðamannafundi í dag.
Fjöldi manna hefur mótmælt á götum Spánar síðan Hasél var handtekinn, en málið hefur vakið alvarlegar áhyggjur um málfrelsi í landinu.