Kyrrsetning 128 flugvéla af gerðinni Boeing 777, á meðan rannsakað er hvað olli því að eldur kom upp í hreyfli United Airlines í gær, hefur engin áhrif á starfsemi Icelandair enda er flugfélagið hvorki með Boeing 777 í sínum flota né vélar með hreyfla af sömu gerð.
Þetta kemur fram í svari Jens Þórðarsonar, framkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs Icelandair, við fyrirspurn mbl.is.
Yfirvöld samgöngu- og öryggismála í Bandaríkjunum rannsaka atvikið sem kom upp í áætlunarflugi sem átti að fara frá Denver til Honululu. Skömmu eftir flugtak kviknaði í öðrum hreyfli vélarinnar með þeim afleiðingum að hann missti afl og brak úr honum féll til jarðar yfir Denver.
Boeing fór í kjölfarið fram á að allar vélar af gerðinni 777 og vélar með Pratt og Whitney 4000-112 hreyfla yrðu kyrrsettar. Þá hefur japanska samgönguráðuneytið farið fram á rannsókn á atviki sem kom upp í áætlunarflugi flugfélagsins JAL á leið frá Haneda til Naha í desemeber síðastliðnum. Sú vél var með sams konar hreyfla.
„Icelandair rekur hvorki Boeing 777-flugvélar né PW4000-112-hreyfla. Því hefur þetta atvik engin áhrif á rekstur félagsins. Ástæður þessa atviks virðast óþekktar og rannsókn stendur enn yfir en ekki sérstök ástæða til viðbragða að svo stöddu, enda beinast sjónir að hreyflinum sem er eingöngu á þessari flugvélategund,“ segir í svari við fyrirspurn mbl.is.