Bóluefni Johnson & Johnson við kórónuveirunni sýnir verulega vörn gegn alvarlegum veikindum og dauðsföllum af völdum Covid-19 samkvæmt nýrri greiningu sem Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) birti í dag. Bóluefnið, sem aðeins þarf að gefa einn skammt af, getur mögulega dregið úr líkum á að þeir sem eru bólusettir dreifi veirunni.
Heilt yfir sýnir bóluefnið 72% virkni í Bandaríkjunum og 64% í Suður-Afríku þar sem bráðsmitandi afbrigði veirunnar hefur geisað undanfarna mánuði og flest smit landsins eru nú af þeirri gerð. Þetta er 7 prósent meiri virkni en fyrst var talið í Suður-Afríku.
Belgíska lyfjafyrirtækið Janssen, sem er hluti af J&J samsteypunni, þróar bóluefnið í samstarfi við Beth Israel Deaconess Medical Center.
Samningur Íslands við Janssen var undirritaður 22. desember 2020. Mat Evrópsku lyfjastofnunarinnar (EMA) er forsenda markaðsleyfis. Áætlað að EMA gefi út álit í mars 2021. Ísland fær bóluefni fyrir 235.000 einstaklinga. Áætlað að byrja afhendingu á öðrum ársfjórðungi.
Bóluefnið sýnir einnig 86% virkni gegn alvarlegum tilfellum Covid-19 í Bandaríkjunum og 82% í Suður-Afríku. Það þýðir að sá sem hefur verið bólusettur með bóluefni Johnson & Johnson er miklu ólíklegri til þess að þurfa á sjúkrahúsvist að halda eða deyja af völdum Covid-19 en þeir sem ekki eru bólusettir.
Talið er að FDA muni veita bóluefninu markaðsleyfi strax á laugardag en sérfræðingaráð þess varðandi bóluefni kemur saman á föstudag og greiðir atkvæði um framhaldið.
Dan Barouch, veirufræðingur hjá Beth Israel Deaconess heilbrigðisstofnuninni í Boston, segir í samtali við New York Times að með bóluefni J&J verði hægt að hraða bólusetningum í Bandaríkjunum sem og annars staðar í heiminum. Bóluefni J&J er hægt að geyma við hefðbundið hitastig í kæliskápum í að minnsta kosti þrjá mánuði sem gerir dreifingu þess mun auðveldari en bóluefna Moderna og Pfizer-BioNTech. Þau bóluefni þarf að gefa í tvígang og geyma við mikið frost.