Fjórir af hverjum fimm bóluefnaskömmtum ónotaðir

Hjúkrunarfræðingur undyrbýr bólusetningu með bóluefni AstraZeneca.
Hjúkrunarfræðingur undyrbýr bólusetningu með bóluefni AstraZeneca. AFP

Fjórir af hverjum fimm skömmtum af bóluefni AstraZeneca og Oxford háskóla sem borist hafa Evrópusambandslöndum hafa ekki verið notaðir, samkvæmt rannsókn Guardian. Kanslari þýskalands viðurkenndi í dag að yfirvöld þar í landi ættu erfitt með að fá fólk til að taka við bóluefninu.  

Samkvæmt gögnum frá Evrópsku sóttvarnastofnuninni og öðrum opinberum aðilum er talið að um 4,8 milljónir af 6,1 milljón bóluefnaskammta frá AstraZeneca sem dreift hefur verið til ríkja sambandsins hafi ekki enn verið notaðir. 

Ákvörðun margra Evrópulanda um að mæla einungis með notkun bóluefnisins fyrir fólk sem er yngra en 65 ára er talinn mikilvægur þáttur í því að bólusetning með efninu hafi ekki gengið jafn vel og búist var við, samkvæmt frétt Guardian. Þá hafi yfirvöldum mistekist að koma bóluefninu frekar til yngra fólks.

Ísland er eitt af þeim ríkjum sem hefur ákveðið að gefa bóluefnið aðeins þeim sem eru yngri en 65 ára. 

Merkel segir bóluefnið öruggt

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði í viðtali í dag að fólk hefði afþakkað bóluefnið vegna áhyggna um virkni þess og öryggi. Merkel sagði enga ástæðu fyrir fólk til að hafa áhyggjur af því enda væri um öruggt og verndandi bóluefni að ræða. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að eitthvað hefði verið um það að Íslendingar hefðu afþakkað bólusetningu með bóluefni AstraZeneca. Hann ítrekaði þó að bóluefnið sýndi mikla virkni og væri alveg öruggt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert