Hæstiréttur Bretlands úrskurðaði í dag að Shamima Begum fengi ekki að snúa aftur til Bretlands. Hún fór þaðan til Sýrlands til þess að ganga til liðs við Ríki Íslams þegar hún var unglingur að aldri. Nú er hún 21 árs gömul og hafði óskað eftir því að fá að ferðast til Bretlands til þess að berjast gegn þeirri ákvörðun stjórnvalda að svipta hana breskum ríkisborgararétti.
Innanríkisráðuneyti Bretlands svipti Begum ríkisborgararétti á síðasta ári eftir að hún fannst í flóttamannabúðum, en áfrýjunardómstóll komst að þeirri niðurstöðu að Begum hafi ekki hlotið réttmæta málsmeðferð þar sem hún hafi ekki getað borið hönd fyrir höfuð sér úr flóttamannabúðunum í Sýrlandi. Þess vegna taldi áfrýjunardómstólsins að leyfa ætti Begum að snúa aftur til Bretlands.
Innanríkisráðuneyti Bretlands áfrýjaði niðurstöðu áfrýjunardómstólsins til Hæstaréttar en ráðuneytið hélt því fram að endurkoma Begum myndi skapa verulega þjóðaröryggishættu.
Í samhljóma úrskurði Hæstaréttar sagði að ekki hafi verið brotið á réttindum Begum þegar henni var synjað um leyfi til að snúa aftur til Bretlands.
Talsvert hefur verið fjallað um mál Begum en hún er ein þriggja breskra skólastúlkna sem yfirgáfu Lundúni til að ganga til liðs við Ríki Íslams í Sýrlandi árið 2015.