Rússnesk stjórnvöld hafa flutt stjórnarandstæðinginn Alexei Navalní úr fangelsi sínu í Moskvu á ótilgreindan stað. Fengu helstu samstarfsmenn hans ekki að vita um flutninginn, og óttast þeir að hann hafi verið sendur í fangabúðir til að hefja afplánun dóms, sem féll fyrr í mánuðinum.
Olga Míkhaílova, ein af verjendum Navalnís sagði við AFP-fréttastofuna að lögmenn hans vissu ekki hvar Navalní væri staddur, en þeir komust að ákvörðuninni þegar samstarfsmaður Míkhaílovu hugðist heimsækja skjólstæðing sinn, og fékk þá að vita að búið væri að flytja hann á brott, en ekki hvert.
Navalní var fyrr í mánuðinum dæmdur til tveggja ára og átta mánaða fangelsisvistar fyrir að hafa rofið skilorð sitt, en brot Navalnís fólst í því að hafa ekki sinnt tilkynningaskyldu sinni meðan hann lá á sjúkrabeði í Þýskalandi og jafnaði sig af taugaeiturárás. Hafa ýmis mannréttindasamtök gagnrýnt dóminn og sagt hann af pólitískum rótum runninn.