1.900 milljarða dala pakki Bidens

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. AFP

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í nótt 1.900 milljarða dala björgunarpakka Joes Bidens Bandaríkjaforseta. 

Atkvæði féllu nær alfarið eftir flokkslínum. 219 demókratar greiddu atkvæði með frumvarpinu en allir fulltrúar repúblikana auk tveggja demókrata, alls 212 þingmenn, voru á móti. Frumvarpið fer nú til öldungadeildarinnar þar sem forsetinn á erfiðara verk fyrir höndum enda demókratar með minnsta mögulega meirihluta í deildinni.

Frumvarpið nefnist á ensku American Rescue Plan og inniheldur nokkur helstu loforða Bidens frá kosningunum í haust. Fjárhæðirnar sem um ræðir eru gríðarlegar enda Bandaríkin fjölmennt land, en til að setja hlutina í samhengi jafngilda 1.900 milljarðar bandaríkjadala um 266 milljörðum íslenskra króna fyrir íslenska ríkið, sé miðað við íbúafjölda.

Í frumvarpinu er einnig að finna ýmsar lagabreytingar, svo sem hækkun lágmarkslauna úr 7,25 dölum (900 kr.) upp í 15 dali (1.900 kr.) á klukkutímann í nokkrum skrefum yfir fjögurra ára tímabil.

Samkvæmt skýrslu fjárlagaskrifstofu Bandaríkjaþings myndu um 27 milljónir Bandaríkjamanna njóta góðs af hækkuninni og 900.000 manns losna undan fátækt. Á móti gætu um 1,4 milljónum starfa verið teflt í hættu – annaðhvort færst úr landi eða orðið tækninni að bráð.

Hörð andstaða repúblikana og jafnvel sumra demókrata er þó slík að ólíklegt þykir að öldungadeildin samþykki þá tillögu.

Helstu útgjaldaliðir frumvarpsins eru:

Beingreiðslur – $422 ma.

Útdeila á 1.400 dölum til allra fullorðinna Bandaríkjamanna. Þó skerðist eingreiðslan ef tekjur ná 75.000 dölum á ári (780 þús.kr. á mánuði). Þetta verður þriðja eingreiðslan sem Bandaríkjamenn fá í faraldrinum, en síðasta vor var þeim send 1.200 dala eingreiðsla og í desember 600 dalir til viðbótar.

Auknar atvinnuleysisbætur – $246 ma.

Um 11 milljónir Bandaríkjamanna hafa verið atvinnulausar frá því faraldurinn hófst og hætta á að missa atvinnuleysisbætur í mars. Framlengja á bótarétt þeirra um hálft ár eða fram til ágústloka. Þá á einnig að hækka mánaðarlegar atvinnuleysisbætur um 400 dali.

Barnabætur – $55 ma.

Auka á skattaafslátt foreldra um 200-250 dali á mánuði, eftir aldri barns. Foreldrar geta nú þegar fengið allt að 2.000 dali árlega í skattafrádrátt.

Covid-próf og bóluefni – $70 ma.

Veita á 50 milljarða dala í að bæta skimunaraðstöðu vegna kórónuveirunnar og 20 milljarða dala í bólusetningarherferð, sem meðal annars felur í sér að koma upp aðstöðu til bólusetningar og ráða inn heilbrigðisstarfsfólk.

Opnun skóla – $170 ma.

Veita á grunn-, framhalds- og háskólum 170 milljarða dala til að auðvelda þeim að opna dyr sínar á nýjan leik, kaupa grímur, bæta loftræstingu og, það sem sennilega kostar mest, gera þeim kleift að fækka nemendum í hverri skólastofu.

Stuðningur við atvinnulíf – $110 ma.

Styðja á frekar við atvinnurekendur sem hafa farið illa út úr faraldrinum. Um 25 milljarðar dala eru veittir til veitingastaða og bara, 15 milljarðar til flugfélaga og átta milljarðar til flugvalla, 30 milljarðar til annarra samgöngumáta, þrír milljarðar til flugvélaframleiðenda og 1,5 milljarðar til Amtrak, bandaríska lestarkerfisins sem Joe Biden forseti hefur miklar mætur á.

Stuðningur við sveitarfélög – $350 ma.

Ólíkt fyrri björgunarpökkum er gert ráð fyrir að alríkið veiti sveitarfélögum og ríkjum sérstakan stuðning. Hið minnsta 500 milljónir dala yrðu veittar til hvers ríkis en það sem eftir er færi til ríkja byggt á tölum um atvinnuleysi. Þetta hugnast repúblikunum síst af ofannefndum aðgerðum.

Greiðslur í veikindaleyfi – $55 ma.

Með björgunarpakkanum yrði fyrirkomulag, sem rann út um áramótin, endurvakið, þar sem atvinnurekendum er gert að greiða fólki laun í veikindum vegna kórónuveirunnar. Ríkið endurgreiðir atvinnurekendum síðan kostnaðinn. Áætlað er að þetta kosti alríkið sex milljarða dala. Launaður veikindaréttur er ekki almennur í Bandaríkjunum. Þá fara 46 milljarðar dala í að niðurgreiða kaup fólks á heilbrigðistryggingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert