Lögregla í Hong Kong hefur ákært 47 aðgerðasinna fyrir að grafa undan ríkinu. Er þetta fjölmennasta ákæra í héraðinu samkvæmt nýjum öryggislögum sem tóku gildi þar í fyrra.
Fólkið var meðal 55 sem handteknir voru í rassíu lögreglunnar í síðasta mánuði. Það tók allt þátt í að skipuleggja óopinberar „forkosningar“ síðasta sumar þar sem velja átti frambjóðendur stjórnarandstöðunnar fyrir þingkosningar í héraðinu. Héraðskosningarnar áttu að fara fram árið í fyrra, en hefur nú verið seinkað til september 2021, að sögn vegna kórónuveirufaraldursins.
Í hópnum eru nokkrir þekktustu lýðræðissinnar Hong Kong, þar á meðal Jimmy Sham einn helstu skipuleggjenda mótmælanna í ríkinu árið 2019. „Lýðræðið er ekki gjöf að ofan. Maður verður að vinna sér það inn með viljastyrk. Við verðum áfram sterk og berjumst fyrir því sem við viljum,“ sagði Sham áður en hann gaf sig fram við lögreglu.
Um 100 manns hafa verið handteknir í Hong Kong á grundvelli nýju öryggislaganna, en með þeim er vegið að málfrelsi, sjálfstjórnarrétti héraðsins og borgararlegum réttindum íbúa Hong Kong sem áður höfðu notið mun meira frelsis en íbúar meginlands Kína.