Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, hefur fallist á að fram fari óháð og sérstök rannsókn á meintri kynferðislegri áreitni hans í garð tveggja fyrrverandi starfsmanna hans. Cuomo neitar sök.
Í viðtali New York Times við Charlotte Bennet, fyrrverandi ráðgjafa ríkisstjórans á sviði heilbrigðismála, sem birtist í dag, komu fram ásakanir á hendur Cuomo. Aðeins eru fjórir dagar síðan Lindsey Boylan, annar fyrrverandi ráðgjafi demókratans, sakaði hann um kynferðislega áreitni.
Bennett, sem er 25 ára, segir að áreitnin hafi byrjað í maí síðastliðnum, þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst í New York-ríki. Hún segir Cuomo hafa spurt hana óviðeigandi spurningar um einkalíf sitt þegar þau voru ein á skrifstofu hans, meðal annars hvort hún myndi íhuga að stunda kynmök með eldri manni. Þá segir Bennett að Cuomo hafi sjálfur sagst hafa áhuga á að eiga í sambandi við konur á þrítugsaldri.
Nokkrum klukkustundum eftir að grein New York Times birtist sendi lögfræðingur Cuomo, Beth Garvey, út yfirlýsingu þar sem tilkynnt var að til að koma í veg fyrir að pólitík eða önnur utanaðkomandi áhrif myndu lita rannsóknina hefði ríkisstjórinn beðið Letitiu James, ríkissaksóknara New York, og Janet DiFiore, dómara í New York, að skipa saman „sjálfstæðan og hæfan lögfræðing í einkageiranum“ til að leiða rannsóknina og gefa út skýrslu.